Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:51:55 (1852)

1999-11-18 13:51:55# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich fór mörgum orðum um að Fljótsdalsvirkjun og framkvæmd hennar væri lögleg án frekari umsvifa og ég er sammála. Enginn þrætir um það. Þótt engar undanþágur hefðu verið gerðar við setningu laganna um umhverfismat þá hefði hún verið lögleg og framkvæmanleg vegna þes að lög virka ekki aftur fyrir sig.

En við, þingmenn í dag, erum bundnir af lögum um umhverfismat og höfum svarið þess skriflegan eið að hlýða öllu slíku. Nú er lögð fram tillaga þar sem okkur er gert að taka afstöðu til að leyfa að slík framkvæmd fari fram. Það getum við ekki gert nema hrundið verði í framkvæmd löggiltu umhverfismati. Þess vegna er þessi þáltill. í besta falli markleysa, óþingleg og líklega þingsafglöp. Ríkisstjórnin á um tvennt að velja, annað hvort að kalla hana til baka eða gerast sek um afglöp og lögbrot á okkur þingmönnum með framgangi hennar.