Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:14:19 (1861)

1999-11-18 14:14:19# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir ræðuna sem hann hélt. Hún var eiginlega nokkuð góð að flestu leyti. Það var eitt atriði sem ég vildi undirstrika varðandi byggðamálaþáttinn. En ég endurtek að ræðan fór síbatnandi eftir því sem leið á hana og vantaði ekki mikið upp á í lokin að við gætum verið fullkomlega sammála.

[14:15]

Hvað varðar byggðamálaþáttinn, þá urðu þáttaskil í málinu þegar ákveðið var að bjóða fram einn stað, Reyðarfjörð, undir stóriðju. Það voru þáttaskilin í byggðamálum. Ég þekki alla þá umræðu sem hv. ræðumaður rakti. En það var aldrei í hendi að það yrði nema þá kísilmálmverksmiðjan á sínum tíma, sem stoppaði á því að krafa var um að Íslendingar ættu meiri hluta, sem var náttúrlega tóm vitleysa. Á þeim tíma var ekkert hægt að koma því í kring. Hins vegar hafa fjármál skipast þannig núna, sem betur fer, að íslenskir fjárfestar eru þess umkomnir að taka slíkar ákvarðanir. Slík hefur þróunin verið síðustu árin.

En þegar Alþfl. fór með þetta mál þá var staðurinn á uppboði. Þessu vildi ég koma á framfæri. Að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta ræðu að flestu leyti.