Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:22:28 (1865)

1999-11-18 14:22:28# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir mjög ágæta sögulega yfirferð og sögulega skoðun á síðustu 20 árum í íslenskum stjórnmálum. Ég deili þeirri skoðun þingmannsins að það sé ljótur leikur að byggja upp væntingar og valda í kjölfarið miklum vonbrigðum.

Mér fannst hins vegar vera örlítil göt í sögulegri yfirferð hv. þm. á síðustu 20 árum þegar hann fjallaði um ríkisstjórnir, aðallega þó vondar ríkisstjórnir að hans mati, að mér fannst hann gleyma einum stjórnmálaflokki í ríkisstjórnarþátttöku á síðustu 20 árum, nefnilega Alþfl. Eftir að hafa bætt honum inn í þessa 20 ára söguskoðun hv. þm. og deila með honum þeirri skoðun að það sé ljótur leikur að skapa væntingar og í ljósi þess að hv. þm. kemur úr Reykjanesi, eins og við báðir reyndar, þá held ég að það sé ágætt að rifja upp mestu væntingar sem hafa verið byggðar upp fyrir nokkrar kosningar líklega í sögu lýðveldisins, þegar farið var fram af miklum krafti og lofað, og ég endurtek, lofað álveri á Keilisnesi, sem er eins og hv. þm. veit, á Reykjanesi. Væntingar voru gífurlega miklar á Reykjanesi.

Að sama skapi urðu vonbrigðin gífurleg rétt eftir kosningar þegar í ljós kom að þetta álver kæmi aldrei á Keilisnes. Þess vegna spyr ég hv. þm.:

Hvaðan átti rafmagnið að koma í Keilisnes?

Úr hvaða stjórnmálaflokki kom sá iðnrh. sem rak það mál af svo miklum skörungsskap?