Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:30:28 (1869)

1999-11-18 14:30:28# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Mér varð nú á að brosa þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, ágætur varaformaður Alþýðuflokksins, lýsti fjálglega því mikla árangursleysi sem orðið hefði af samstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hvað varðaði nýja stóriðju. Þá varð mér hugsað til þess, og það fékk mig til að brosa, að ég er búin að vera tvö kjörtímabil á þingi. Fyrra kjörtímabilið vorum við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum og það var alltaf gríðarlega mikið að gerast í stóriðjumálum. Ágætur iðnrh. Alþýðuflokksins geystist um heiminn, fór hverja sigurförina á fætur annarri og kom síðan í Alþingi og hélt miklar ræður um að nú væri stóriðja handan við hornið. Og þingið trúði þessu lengi vel. Hann fór líka í fjölmiðlana. Það voru ágæt viðtöl við hann í sjónvarpinu og þjóðin trúði þessu líka lengi vel. En þegar leið á kjörtímabilið voru menn hættir að trúa þessu og sáu að þetta var bara stormur í vatnsglasi og ekkert að marka. Seinna kjörtímabilið, þ.e. það síðasta, þá vorum við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum sem hv. þm. var að tala um að hefði ekki borið neinn árangur. Og hver er árangurinn? Nýtt álver á Grundartanga, stækkun á álverinu í Straumsvík, stækkun á járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, mörg hundruð ný störf í þessum fyrirtækjum og annað eins eða meira af afleiddum störfum, þ.e. störfum við þjónustu við þessi fyrirtæki. Þetta er munurinn, hv. þm., á samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varðandi stóriðjumál og samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Það er sama hvað menn halda hér langar og miklar ræður um það. Þetta eru bara staðreyndirnar.