Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:33:58 (1871)

1999-11-18 14:33:58# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti nú ekki von á að þetta væri svo viðkvæmt hjá hv. þm. að hann færi að reiðast. Það er mikill misskilningur að hér sé um einhverjar ástarjátningar að ræða þó maður segi sannleikann þegar kallað er eftir honum. Málið er bara ekki flóknara en það. Það þýðir ekki endilega að ég sé sammála öllu sem Framsóknarflokkurinn er eða hefur verið að gera. En okkar ágæti samstarfsflokkur hefur staðið sig vel í þessum málum og það má alveg koma fram af munni sjálfstæðismanna. Ég var alls ekkert að gefa í skyn að Alþýðuflokkurinn hefði ekki verið heill í þessum málum. En það náðist ekki árangur á þessu kjörtímabili, þessi fjögur ár sem við vorum saman. Þáverandi iðnrh. var endalaust að gefa í skyn að eitthvað mikið væri að gerast, (RG: Algjör skepnuskapur.) sem því miður var ekki. Það er ekki rétt hv. þm. Það er enginn að gefa til kynna neinn skepnuskap. Það náðist bara ekki árangur. Sá er munurinn. Þetta er ekki flóknara en það.