Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:06:19 (1876)

1999-11-18 15:06:19# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vonast til þess að hv. þm. hafi hlustað á framsöguræðu mína með málinu þar sem ég fór nákvæmlega yfir alla þessa þætti, þjóðhagslegu áhrifin, byggðalegu áhrifin og umhverfislegu áhrifin. Þær tölur sem ég er að koma fram með núna eru ekki tölur sem ég var með í þeirri ræðu, en af því að nákvæmlega var spurt um einstaka þætti, þá bar ég þær hér fram. Ég er ekki að draga þessa hagfræðinga hér upp og gera þá að mínum leiðsögumönnum í þessum efnum, það kom fram m.a. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hér í umræðunni. Ég er hins vegar að leiðrétta þær forsendur sem viðkomandi menn gáfu sér en undirstrika það að þessir menn reiknuðu hárrétt. Forsendurnar voru rangar. Og ég ítreka það sem ég sagði áðan, þarna er um sjálfstætt verkefni að ræða sem einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir munu eignast í, sem er álverið ef af verður. Þessir aðilar taka ákvarðanir sínar á grundvelli arðsemissjónarmiða og ekki neins annars.