Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:39:09 (1892)

1999-11-18 15:39:09# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að ég hélt því fram í ræðu minni um miðjan október þegar fjallað var um málefni Fljótsdalsvirkjunar að bráðabirgðaákvæði II í lögum um mat á umhverfisáhrifum hefði annað vægi en ég tel í dag. Ég lét vita af þeirri skoðun minni á fundi umhvn. nýlega. Ég hef rætt þetta nokkuð ítarlega síðan hér í ræðustól og vakið mjög skýra athygli, að því er ég tel sjálf, á þeirri lagalegu óvissu sem ríkir um málið. En það byggir ekki á þessu bráðabirgðaákvæði og það byggir ekki á neinum efasemdum um afturvirkni laganna heldur á allt öðrum þáttum. Það byggir á því að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, sem þessi lög eru grundvölluð á, er ætlast til þess að fyrir liggi öll leyfi til þess bærra aðila til að hægt sé að fara í framkvæmdir af þessu tagi.

Samkvæmt íslenskum lögum þarf tvö leyfi til og ég fór mjög ítarlega yfir það í máli mínu hér í gær. Annað leyfið heitir virkjunarleyfi. Það liggur fyrir og ég dreg ekki í efa að það sé í gildi. Hitt leyfið sem til þarf samkvæmt íslenskum lögum heitir framkvæmdaleyfi. Frá sveitarstjórninni, frá Fljótsdalshreppi, liggur ekki fyrir framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir þeim framkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar. Um þetta ríkir þess vegna lagaleg óvissa og það þarf að fá úr henni skorið. Ég tel langlíklegast að úr henni verði ekki skorið nema fyrir dómstólum.