Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:41:05 (1893)

1999-11-18 15:41:05# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrri hluti andsvarsins er þannig að ég er fullkomlega ósammála því. Íslensk lög eru sett á Alþingi þannig að einu gildir hvað stendur í tilskipunum Evrópusambandsins. Það eru ekki lög á Íslandi nema viðkomandi tilskipun eða efni hennar hafi farið í gegnum afgreiðslu Alþingis og verið gerð að lögum. Ég vænti þess að hv. þm. sé mér sammála um það að við höfum ekki flutt Alþingi Íslendinga til Brussel.

Í öðru lagi hefur það legið fyrir og kemur fram í skjölum málsins, m.a. í ræðu hæstv. umhvrh., að sveitarstjórn Fljótsdalshrepps þarf að veita tiltekin leyfi. Hún þurfti þess á sínum tíma og hún fékk beiðni um það og afgreiddi það að hluta og að hluta til er það óafgreitt. Það breytir engu um að málið hefur fullkomlega skýra lagalega stöðu. Það er fullkomlega órökrétt að halda því fram að þó að það mál sé ekki afgreitt, að þá séu aðrir hlutir í uppnámi. Því fer fjarri. Málið hefur fullkomlega skýra stöðu og allar lagalegar heimildir.