Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:42:26 (1894)

1999-11-18 15:42:26# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Nú er hvorugt okkar löglært, hvorki ég né hv. þm. Kristinn Gunnarsson og mér finnst alveg með ólíkindum að hann telji að við getum kveðið upp úr um það ef fróðir lögfræðingar telja að um lagalega óvissu sé að ræða. Ég ætla mér ekki að hafa meiri þekkingu en slíkir sérfræðingar.

Það sem sveitarstjórnin fyrir austan hefur heimilað skilst mér að hafi þegar verið framkvæmt. Það sem eftir á að framkvæma hefur ekki verið heimilað samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli að menn átti sig á.

Það er rétt hjá þingmanninum að íslensk lög eru sett á Alþingi. En lög um mat á umhverfisáhrifum eru sett vegna þess að fyrir lá tilskipun frá Evrópusambandinu og lögin eru samin í samræmi við þá tilskipun og eru eiginlega samhljóða þeirri tilskipun. Það er einnig miðað við markmið laga, markmið þessarar ákveðnu tilskipunar og sömuleiðis þau dómafordæmi sem margoft hefur reynt á.

(Forseti (HBl): Þingmenn skulu gæta þingskapa og segja herra forseti í upphafi ræðu sinnar.)