Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:43:48 (1895)

1999-11-18 15:43:48# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara árétta að það skiptir engu máli hvað stendur í tilskipun Evrópusambandsins. Það skiptir engu máli hvaða hugsun er þar á bak við. Það sem skiptir máli er hvernig íslenskur lagatexti er. Það er það sem skiptir máli. Og það leikur enginn vafi á því, herra forseti, að hann er skýr og kveður ekki á um afturvirkni þeirra laga.

Ég vil hins vegar minna hv. þm. á, af því hann er að vitna til þessarar tilskipunar, að við höfum ekki gengið eins langt í að hafa rúmar lagaheimildir og þar er kveðið á um. Þar er m.a. tekið fram að nægjanlegt sé að hafa sótt um leyfi við gildistöku laganna til þess að vera undanþeginn ákvæðum þeirra. Ef við hefðum tekið þá afstöðu eins og kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins þá væri umrætt leyfi gagnvart Fljótsdalshreppi fullkomlega undanþegið lögunum skýrt og klárt. (Gripið fram í: En það er það ekki.) Það er það jú.