Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:48:27 (1898)

1999-11-18 15:48:27# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að sá þingflokkur sem ég er í er á móti Fljótsdalsvirkjun, það er rétt. Ég hef hins vegar ekki skipt um neinn takt í umræðunni. Þetta eru sömu áherslur og ég hef verið með áður.

Hitt er alveg rétt að það er að renna upp fyrir mér og mörgum fleirum hvílíkt efnahagslegt glæfraspil er hér á ferðinni og hve vanhugsað þetta er út frá arðsemissjónarmiðum, hve vanhugsuð þessi ráðstöfun öll er. Ég vil vekja athygli á því að þeir hagfræðingar sem við höfum verið að vitna í eru ekki á sömu pólitísku skoðun og við, síður en svo. Hér eru á ferðinni margir virtir hagfræðingar sem koma víðs vegar að úr stjórnmálunum, margir eindregnir hægri menn, frjálshyggjumenn, menn sem kunna að hugsa upp á bisnessvísu.

Auðvitað ber að taka röksemdir þeirra alvarlega þegar þeir vara okkur við því að verið sé að tefla efnahagslífi þjóðarinnar í alvarlega hættu.