Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:49:48 (1899)

1999-11-18 15:49:48# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er tekist á um grundvallaratriði. Eru stjórnmálaflokkar reiðubúnir að beita sér fyrir því að byggja upp efnahagslíf á Íslandi eða eru þeir á móti því? Það er alveg ljóst að skoðanir okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar eru andstæðar. Ég tel að við eigum að nýta auðlindir okkar til þess að skapa atvinnu og skapa auð sem rennur um þjóðfélagið og kemur öllum til góða með einum eða öðrum hætti. Ég trúi því að með því móti komum við í veg fyrir atvinnuleysi og með því móti komum við í veg fyrir byggðaröskun eins og við höfum mátt upplifa á undanförnum áratugum.

En hv. þm. Ögmundur Jónasson er á móti því. Staðreyndin er nefnilega sú að það eru þeir sem fjárfesta, sem fjármagna framkvæmdir sem þessa, sem meta áhættuna. Það eru þeir sem gera það. Þetta eru viðskipti og þau komast á ef báðir aðilar sem standa að viðskiptunum sjá hag sínum vel borgið. Það er það sem við trúum að muni gerast í þessu máli.