Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:53:21 (1901)

1999-11-18 15:53:21# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna því að talsmaður Samfylkingarinnar hefur rofið hina löngu þögn sína um málið. Kjarni málsins er þessi: Alþingi hefur ákveðið hvernig með skuli fara í framtíðinni um virkjanir og aðrar slíkar framkvæmdir. Það er alveg klárt. Það er eining um það hvernig það á að vera og það verður í framtíðinni. En Alþingi getur ekki ákveðið nú frekar en áður að hafa lög afturvirk.

Menn segja því: Við skulum taka þessa einstöku framkvæmd og gera lögin afturvirk gagnvart henni. Vera má að menn gætu gert það ef menn hefðu nógan tíma. En málið er ekki í þeirri stöðu, herra forseti. Málið er í þeirri stöðu að við höfum aðila sem við erum að semja við, aðila sem er tilbúinn að kaupa raforkuna sem virkjunin á að framleiða og reisa iðjuver til að vinna úr henni. Í slíkum viðræðum er ekki hægt að setja þær í uppnám með því að taka málið úr þeim farvegi sem það er í og setja það í annan farveg þar sem er viðbúið að það tæki langan tíma og yrði mikið --- þeir sem eru andstæðingar þessa máls mundu örugglega beita sér af fyllsta krafti á móti málinu og nýta þann farveg til að spilla fyrir framgangi þess.

Það er nefnilega alveg rétt sem fyrrv. formaður Alþfl., Kjartan Jóhannsson, sagði á sínum tíma: Tækifæri eins og þessi gefast bara stundum og þegar þau gefast þá eiga menn að grípa þau. Þeir sem hafa kjark til að nota tækifærin til atvinnuuppbyggingar verða ofan á. Hinir sem þora ekki bera einhverju við. Þeir bera einhverju við eins og Samfylkingin hefur gert. Það er vegna þess að hún þorir ekki að taka á málinu, hún ætlar að skjóta sér frá því og hún ætlar að eyðileggja það. Það er það sem mun gerast ef farið verður að tillögu Samfylkingarinnar í þessu máli.