Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:55:28 (1902)

1999-11-18 15:55:28# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það heitir ekki að skjóta sér undan því að taka afstöðu þegar lagðar eru fram mjög skýrar tillögur eins og Samfylkingin hefur gert. Hver setti málið í uppnám? Hvers sök er það að málið er í uppnámi? Það er einfaldlega vegna þess að við höfum ekki staðið rétt að. Við höfum ekki staðið rétt að og þá kannski fyrst og fremst ríkisstjórnin með því að fara rétta leið með málið í mat á umhverfisáhrifum eins og við höfum þó flutt margar ræður um að sé nauðsynlegt með allar meiri háttar ákvarðanir. Ég spyr: Ef alþingismenn hv. eru ekki færir um að breyta lögum eða fara að lögum eru þeir þá færir um að framkvæma mat á umhverfisáhrifum? Telur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sig vera það vel að sér í þeim efnum að hann geti framkvæmt hér mat á umhverfisáhrifum?