Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:51:27 (1926)

1999-11-18 16:51:27# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka að nú hefur verið hægt nokkuð á þannig að auðveldara var orð að nema. Vegna þess að hv. þm. var að fjalla um áhrifin af álversbyggingu vil ég vekja athygli á því að það mál og þeir pappírar sem hv. þm. var að vitna til eru í eðlilegum farvegi. Nú eru þær skýrslur sem lagðar hafa verið fram vegna álversins hjá Skipulagsstofnun. Það er verið að bíða eftir athugasemdum og ég trúi því, herra forseti, að hv. þm. muni koma þessum athugasemdum sínum á framfæri við rétta aðila (KolH: Vissulega.) þannig að hægt verði að rannsaka og skoða eins og kostur er vegna þess að vissulega er mikilvægt að við getum verið sem best undir það búin þegar við fáum þetta álver við Reyðarfjörð. Og ég endurtek, herra forseti, að ég treysti því að það fólk sem þar er við stjórnvöl muni bregðast við eins og nauðsynlegt er og það verði til þess að efla byggðir um Austurland allt.