Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:52:59 (1927)

1999-11-18 16:52:59# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég heyri hér utan að mér talað um málþóf. Það er nú ætíð svo þegar við stjórnarliðar dirfumst að taka til máls í einhverju máli að þá er talað um málþóf því yfirleitt eigum við að þegja. Ég ætla ekki að þegja í þessu máli. Þessari umræðu fer nú væntanlega að ljúka en hún hefur verið um margt athyglisverð. Hér hafa tekist á ýmis sjónarmið. Sumir hafa talað út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Aðrir hafa talað út frá efnahagslegum sjónarmiðum. Sumir hafa talað út frá formi, lögum og lagasetningu. Ég ætla að byrja á því að nefna og endurtaka mitt álit á náttúruverndarkaflanum í málinu.

Það er því miður svo að Fljótsdalsvirkjun verður ekki reist á hagkvæman hátt nema til komi lón á Eyjabökkum. Það er staðreynd. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni að auðvitað væri best ef hægt væri að komast hjá því en hjá því verður ekki komist. Það er ljóst af þeim rannsóknum sem hafa farið fram í tvo áratugi. Hugmynd Helga Hallgrímssonar, sem er hinn besti maður, er óaðgengileg. Hann hefur rætt þessi mál af miklum heilindum og lagt margt athyglisvert inn í þessa umræðu enda gagnkunnugur á þessum slóðum og vísindamaður ágætur. En því miður hafa tillögur hans um lón annars staðar ekki reynst aðgengilegar. Því er alveg ljóst að það verður að færa þessa fórn sem ég kalla.

Þá er komið að hinum efnahagslegu sjónarmiðum. Hv. 13. þm. Reykv. hefur tekið að sér að tala fyrir þeim og hv. 6. þm. Norðurl. e. kom einnig að þeim í gær. Þeir félagar hafa tekið það að sér fyrir hönd þingflokks vinstri grænna að tala fyrir þeim sjónarmiðum og gera lítið úr efnahagslegum þætti málsins, gera lítið úr því að þetta sé efnahagslegt mál fyrir þjóðina. Þeir telja þetta peningalegt fúsk, ef ég hef tekið rétt niður eftir 13. þm. Reykv.

Á þetta mál er auðvitað lagt fjárhagslegt mat. Einhver talaði um það hér áðan hvort ekki ætti að leggja mat á hina fjárhagslegu hlið. Auðvitað leggja þeir fjárfestar sem eiga að taka þátt í þessu og ætla sér að taka þátt í þessu, fjárhagslegt mat á þetta. Sem betur fer hefur málum verið svo stýrt hér á landi undanfarin ár að fjárfestingar innlendra aðila, sem þóttu óhugsandi fyrir nokkrum árum, eru vel hugsanlegar nú. Hér hefur peningamarkaðurinn gjörbreyst á fáum árum. Þegar talað var um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og meirihlutaeign Íslendinga í henni þá datt engum í hug að íslenskir fjárfestar ættu að eiga meiri hlutann í þeirri verksmiðju. Nei, það var ríkið sem átti að leggja fram þá peninga. Nú er það ekki svo. Nú er þetta mál metið eftir efnahagslegum rökum en pólitískar ákvarðanir koma þar ekki að.

Talað var um að tekjurnar af orkusölunni væru 3 milljarðar. Tekið til samanburðar þá eru viðbótartekjur af ferðaþjónustu á yfirstandandi ári 6 milljarðar, ef ég hef tekið þessar tölur rétt niður. En því var sleppt, og það sýnir hvernig málflutningurinn er, að útflutningstekjurnar af stóriðju nú þegar eru hvorki 3 eða 6 milljarðar. Þær eru 21 milljarður kr. og mundu aukast um 13--15 milljarða kr. við fyrsta áfanga álvers á Reyðarfirði. Þetta eru hin efnahagslegu rök í málinu. Síðan halda menn áfram og segja: ,,Ja, þetta er bara fyrir Austfirðinga, nokkur þúsund manns á Austurlandi sem hafa hag af þessu.`` Og það er sagt: ,,Þetta er ekki fyrir þjóðina. Þetta er bara fyrir Austfirðinga.`` Austfirðingar eru nú hluti af þjóðinni og þetta er fyrir íslenskt efnahagslíf til þess m.a. að við höfum tækifæri til að gera margt sem okkur langar til þess að gera á öðrum sviðum, t.d. öðrum sviðum byggðamála. Ef við þurfum að leggja fé í það þá þurfum við atvinnulíf til að standa undir því.

[17:00]

Hv. 5. þm. Austurl. ræddi um það í gær að efla ætti atvinnuþróunarfélögin og það væri ráð í atvinnumálum. Ég er alveg sammála því, það á að efla þau. Það er hið besta mál. Þingmaðurinn taldi líka upp að gera ætti nokkur góðverk í félagslega kerfinu, í í félagsmálum, fræðslumálum o.s.frv. Jú, ég alveg sammála öllu sem þingmaðurinn sagði í því. En við þurfum atvinnulíf til að standa undir því sem við ætlum að gera.

Nokkuð hefur verið rætt um meðferð málsins á Alþingi. Ég endurtek að mér finnst margir hv. þm. sem hér hafa talað gera mjög lítið úr þinglegri meðferð mála. Þingið hefur góða möguleika til vandaðrar umfjöllunar um þetta mál. Það er ekki alltaf sem þingið fær til sín skýrslur um mál sem byggðar eru á rannsóknum í 20 ár og hefur tækifæri til að kalla á sérfræðinga til að fjalla um þær skýrslur í tveimur þingnefndum. Ég held að þingið ætti að fagna því að fá að fjalla um þetta mál. Þingmenn ættu að fagna því að fá að fjalla um málið og kalla til sérfræðinga til að fjalla um þau atriði sem þeir eru í vafa um.

Það var undarlegt að heyra hv. 4. þm. Reykn. fárast yfir því áðan að iðnn. hafi opnað heimasíðu, þegar iðnn. er að fást við eitt stærsta mál sem komið hefur fyrir þingið, að formaður þingflokks Samfylkingarinnar skuli fárast yfir því að heimasíða sé opnuð til þess að gefa almenningi kost á því að hafa samband við þingið. Þetta er eitt af því allra furðulegasta sem ég hef heyrt í þessari umræðu. Maður verður náttúrlega alveg rothissa að heyra svona. Í öðru orðinu er kvartað yfir því að almenningur hafi ekki aðgang að þinginu en síðan er fárast yfir því að heimasíða sé opnuð á einhverjum vitlausum degi. (Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er enginn útúrsnúningur. Það var umræða um þetta hér áðan.

Hér hefur verið rætt um umhverfismat og verið lagt út frá því. Einnig hefur verið lagt út frá því að hér sé meira í spilunum, fleiri stórframkvæmdir. Því hefur verið svarað að ekki hafi verið lofað orku nema sem svarar til 120 þús. tonna álvers á Reyðarfirði. Kárahnúkavirkjun og virkjun í Jökuslá á Fjöllum, ef hún rís sem ég er nú ekki trúaður á, fara í umhverfismat samkvæmt núgildandi lögum. Það er í núgildandi lögum og allar stórframkvæmdir hér eftir verða að fara í umhverfismat, þau lög eru hins vegar ekki afturvirk hér á landi og þess vegna er þessi umræða. Hins vegar skil ég ekki hvers vegna hér kemur þingmaður eftir þingmann frá þingflokki vinstri grænna og lýsir yfir að þeir séu bara alfarið á móti álveri. Hv. 13. þm. Reykv. lýsti því yfir áðan að hann væri á móti álveri. Það hafa fleiri gert. (Gripið fram í: Á móti?) Á móti þessari framkvæmd. (Gripið fram í: Já, 480 þús. tonna álveri. ) Já, 120 þús. tonna álveri. (Gripið fram í: 120?) 120. (Gripið fram í: 480 samkvæmt þessari þáltill.) 480 þúsund, gott og vel. Hvers vegna erum við þá hér í maraþonumræðum um umhverfismat? Af hverju tala ekki hv. þm. á þeim forsendum að þeir séu á móti álveri eins og þingflokkurinn er að berjst fyrir? (ÖJ: Ég hef alltaf gert það.) (KolH: Gerum það.) Já, hvers vegna er þá talað um umhverfismat? (ÖJ: Af því að það eru landslög.) Af því að það eru landslög um nýjar framkvæmdir. (ÖJ: Alveg rétt, sem verið er að fjalla um hér.) Já, en það hagar öðruvísi til um þessa framkvæmd og menn eru sammála um það. Hins vegar ...

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að gefa ræðumanni næði til að tala.)

Hins vegar skil ég ekki (Gripið fram í: Er verið að efna til ófriðar?) tvískinnunginn í þessu máli. Það er ætíð svo að ef hv. þm. stjórnarandstöðunnar er svarað þá er verið að efna til ófriðar. Ég hef málfrelsi í þessu máli og ætla að notfæra mér það. Ég vona að umfjöllun þingsins um þetta mál verði vönduð. Ég veit það reyndar og er t.d. viss um að umhvn. mun finna votlendi, land sem hægt er að gera að votlendi. Ég get veitt hv. 14. þm. Reykv. svolitla leiðsögn í því og kannski boðið henni í ferð til Austurlands á nokkra staði sem að kæmu til greina. Það tilboð stendur. En ég vona að umfjöllun um þetta mál verði vönduð og leiði til farsællar niðurstöðu.