Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:40:56 (1950)

1999-11-18 17:40:56# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ef menn eru svo rökþrota að þeir eiga ekki annað að tala um en að pólitískir andstæðingar þeirra séu gamansamir, séu óábyrgir, taki þessu af léttúð, þá er það þeirra mál. (RG: Það er þingmaðurinn sjálfur sem gerir það í sinni ræðu.) Það kann að vera að sumir séu gamansamari en aðrir. Það liggur fyrir hvernig fjárfestingar hafa verið í íslenskum stóriðnaði síðustu þrjátíu árin. Það liggur allt fyrir að það hafi skilað mjög miklum arði, liggur alls staðar fyrir á öllum skýrslum og það hefur enginn vefengt það. Það hefur orðið Íslandi og íslensku efnahagslífi til mikillar gæfu þó enginn hafi haldið því fram að það væri kannski mestu og bestu viðskipti sem við gætum nokkurn tímann haft. Það voru mjög ábyrgir menn sem stóðu fyrir þeirri tæknivæðingu og þeim virkjunarframkvæmdum. Það var ekki af léttúð eða gamansemi sem við fórum af stað með stóriðju og það er ekki heldur verið að gera það af léttúð og gamansemi í dag. Þó menn komist ekki hjá því að brosa stundum yfir hjákátlegum málflutningi þeirra sem hafa gegnum ár og tíð barist fyrir opinberum rekstri en treysta svo ekki fyrirtæki eins og Landsvirkjun til þess að geta fjárfest og samið um raforkuverð. Það hefur enginn samið um raforkuverð enn þá. Við vitum ekkert hvernig þeir samningar fara, það gæti farið svo að við næðum ekki samningum. Það hefur engum manni dottið í hug að fara að virkja eða byggja álver án þess að við fyndum rekstrargrundvöll fyrir því. Ekki nokkrum einasta manni. Landsvirkjun mun aldrei byggja þessa virkjun nema hún geti selt raforkuna á verði sem hægt er að sætta sig við, það hefur aldrei staðið til, allir reikningar um að þetta séu 13 eða 10 eða 14 milljarða tap, það er bara út í loftið, bara vitleysa. Menn eru bara að gefa sér staðreyndir sem þeir vita ekkert um. Það er fullkomlega ábyrgt af mönnum að fara út í samninga um raforkuverð og leita allra leiða til þess að gera vatnsaflið arðbært.