Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:43:14 (1951)

1999-11-18 17:43:14# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður tíðrætt um raforkuverð. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur segir í grein í Frjálsri verslun nýlega að rafmagnsverð til stóriðju þurfi að hækka um tæp 60% frá meðalverði ársins 1998 ef virkjunin eigi að bera sig. Annar hagfræðingur heldur því fram að tap Landsvirkjunar af stóriðju hafi numið tæpum 26 milljörðum króna á árunum 1996--1997. Síðan getum við deilt um það hvaða áhrif þetta hafi haft í þjóðarbúið. Það er önnur saga. En ég vek athygli á þessu að gefnu tilefni, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að enginn hefði vefengt þetta, að stóriðja og virkjanir í þágu stóriðju hefðu skilað þjóðinni hagnaði. Ég er að vitna í tvær greinar sem ég hef hér við höndina núna, en ef málflutningurinn er reistur á rökum af þessu tagi þá er undirstaðan veik og þá skil ég það að menn þurfi að hafa hátt.