Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:58:36 (1961)

1999-11-18 17:58:36# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Nú þegar kemur að lokum þessarar umræðu vil ég aftur ítreka þakkir fyrir ágætlega málefnalega umræðu. En af því mér gafst ekki tími í fyrri ræðu minni að svara öllum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint þá ætla ég að fara í nokkur atriði sem einstakir þingmenn hafa spurt um.

Ég ætla fyrst að koma að því sem fram kom áðan í andsvari hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Það var einfaldlega rangt. Ef hún hefði hlustað á umræðuna áðan þá hefði hún ekki farið með fleipur. (Gripið fram í.) Ég sagði einfaldlega að fjárfestarnir tækju ákvörðun um arðsemina af álverinu en Landsvirkjun tæki ákvörðun um fjárfestingaráformin varðandi virkjanirnar og þar væru kröfur af okkar hálfu, sem erum eigendur og förum með eignarumboð þjóðarinnar í þessu fyrirtæki, um 5--6% arð af eigin fé af þeim orkusölusamningum sem gerðir eru.

Í öðru lagi vildi ég halda því til haga sem ég sagði hér áðan, varðandi það sem oft hefur fram komið hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og snýr að útreikningum sem benda til þess að tap verði af framkvæmdunum. Hann vitnar hér í hagfræðinginn Sigurð Jóhannesson en í þeim útreikningum er raforkuverðið of lágt, afkastageta Fljótsdalsvirkjunar of lágt metin og reiknivextirnir sem fram koma of háir. Þessu hefur verið haldið til haga við umræðuna og ég ítreka það hér.

[18:00]

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði mikið úr því að hvert starf í stóriðju væri kostnaðarsamt í samanburði við ferðaþjónustuna. Það er alveg rétt. Hvert starf í stóriðju er kostnaðarsamt, þ.e. fjárfestingin í hverju starfi er mjög kostnaðarsöm miðað við ferðaþjónustu. En það er ekki það sem menn eiga að horfa á, það sem menn eiga að horfa á í því samhengi eru þær tekjur sem einstaklingarnir hafa af hverju starfi. Og þegar við skoðum hagskýrslu Þjóðhagsstofnunar og berum saman launakostnað per ársverk, annars vegar í stóriðjunni og hins vegar í ferðaþjónustunni og tek ég þar hótel- og veitingaþjónustuna, þá eru laun fyrir hvert ársverk í stóriðjunni 2,4 millj. á meðan laun á hvert ársverk í ferðaþjónustunni eru 1,1 millj. Það er helmingsmunur og meira en það. Það eru því greidd helmingi hærri laun í stóriðjunni en í hótel- og veitingastarfsemi.

Hv. þm. kom inn á rammaáætlun ríkisstjórnarinnar sem verið er að vinna að og hv. 17. þm. Reykv., Kolbrún Halldórsdóttir, kom einnig inn á og fagnaði því að slíkt væri farið af stað og það er gott að heyra vegna þess að við erum fyrr á ferðinni en nokkrir aðrir. Norðmenn fóru af stað með slíka rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í Noregi þegar þeir voru búnir að nota 67% af orkulindunum. Við erum að fara á stað með sambærilega rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma þegar við erum búin að nýta 12% af auðlindum okkar, þannig að við erum framsýnni en margar aðrar þjóðir á þessu sviði.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurði um skoðun mína á viðtali við Aðalheiði Jóhannesdóttur sem birtist í Morgunblaðinu. Þar vísaði ég til svars í grg. með þáltill. og svo þeirra bréfa sem hafa gengið milli iðnrn. og umhvrn., sem eru ljósrit á bls. 155 í þáltill. Þar segir, þar sem iðnrn. skrifaði umhvrn. og var að ganga eftir skilningi á lagaheimildum og hvort leyfi iðnrh. þyrfti að liggja fyrir útgefið leyfi til Fljótsdalsvirkjunar í skilningi bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. við óskuðum staðfestingar á að þetta væri réttur skilningur og ,,jafnframt er óskað staðfestingar umhvrn. á þeim skilningi iðnrn. að samkvæmt þessu sé ekki skylt að lögum að fram fari mat á umhverfisáhrifum áður en gefin eru út leyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.``

Þessu bréfi er svarað þannig að sá skilningur iðnrn. sé klár. Þess vegna er alveg ljóst að allar lagaheimildir eru til staðar nú þegar í skilningi laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Ég held að segja megi að niðurstaða þessarar umræðu sé sú að öll lagaleg skilyrði málsins eru klár og þau eru ekki dregin í efa nema af sárafáum þingmönnum.

Í öðru lagi er ekki efast um þjóðhagslegan ávinning af þessum framkvæmdum.

Í þriðja lagi erum við, held ég, sammála um, hvernig svo sem menn líta á málið, að hér er um gríðarlega stórt byggðamál að ræða.

Í fjórða lagi eykur þessi starfsemi fjölbreytni í atvinnulífinu frá því sem nú er. Því hefur ekkert komið fram, að mínu mati við þessar umræður, sem breytir afstöðu ríkisstjórnarinnar til þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir, þ.e. að hinn mikli þjóðhagslegi ávinningur sem af þessum framkvæmdum er yfirvinni þann skaða sem verður á náttúrunni við þær framkvæmdir sem farið er í.

En ég vil ítreka það í lokin, og undirstrika, að það hefur enn ekki verið samið um þetta verkefni og auðvitað munu framkvæmdirnar ráðast af þeim samningum, hvort þeir takast eða ekki.