Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:12:39 (1967)

1999-11-18 18:12:39# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið gegnumgangandi í þessari umræðu og ekki síst hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að hún hefur efast um hina lagalegu stöðu málsins, ein af fáum þingmönnum. Það hefur komið skýrt fram að hún efast um lagalega stöðu málsins. Allar þær áskoranir á iðnrh. sem hér komu fram hjá hv. þm. ganga út á að iðnrh. brjóti lög. (KolH: Breyti lögum). Þetta er misskilningur, hv. þm. Iðnrh. getur ekki breytt lögum. Það er þessi samkoma sem við erum nákvæmlega stödd á í dag, sem er löggjafarsamkoma þjóðarinnar. (KolH: Breytum lögum.) Og þess vegna hef ég margoft sagt að það er ekki iðnrh. eða ríkisstjórnar að ákveða hvort þessi framkvæmd á að fara í mat á umhverfisáhrifum eða ekki. Það er Alþingi eitt sem getur tekið ákvörðun um það. Hér hefur komið fram lagafrv. frá Samfylkingunni um að svo skuli gert, að taka þessi réttindi af Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja, Rarik og fleiri aðilum sem hafa þessi réttindi í dag. Pólitískur stuðningur ríkisstjórnarflokkanna er ekki við það mál. Þáltill. sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var 1. flm. að breytir engu um þau réttindi sem Landsvirkjun hefur að öðru leyti en að það gæti verið pólitísk yfirlýsing þingsins um hvað ætti að gera. Nákvæmlega eins og með þessari þáltill. sem hér liggur fyrir er ríkisstjórnin að ganga eftir því og kanna hver sé hinn pólitíski vilji Alþingis til þessara framkvæmda. Það mun síðan koma fram við atkvæðagreiðslu eftir síðari umræðu málsins.