Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:15:30 (1969)

1999-11-18 18:15:30# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Tilgangurinn með þessum tillöguflutningi, og það hefur reyndar margoft komið fram, er ekki síst sá eins og hv. þm. benti á að uppfræða almenning um stöðu málsins, þ.e. skapa pólitíska umræðu um þær framkvæmdir sem deilt er um úti í þjóðfélaginu. Við lögðum okkur fram um að draga saman í þessu þingskjali ásamt þeim gögnum sem Landsvirkjun leggur fram fyrir þingið, sem er skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrir Fljótsdalsvirkjun, í þeim tilgangi að þingmenn geti tekið afstöðu til málsins, skapað pólitíska umræðu um málið og gefið almenningi tækifæri til þess að hafa beint samband við þingið og koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum nefndastarf iðnn. Þetta tel ég vera mikilvægt.

Auðvitað erum við um leið að leita eftir því hvort vilji Alþingis hafi breyst frá því að ákvörðun var tekin 1981 á löggjafarsamkomunni að afhenda Landsvirkjun þann rétt sem fyrirtækið hefur. Nú munum við ganga úr skugga um það. Er pólitísk breyting á því? Er ekki enn þá stuðningur Alþingis við að fyrirtækið hafi þessi réttindi? Það kemur fram í atkvæðagreiðslu.

En af því að þetta er síðasta andsvar við hv. þm. og ég held að ég sé síðastur á mælendaskrá vil ég þakka fyrir þátttökuna í umræðunni sem ég tel að hafi verið málefnaleg og býsna góð og um margt mjög upplýsandi líka.