Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:20:59 (1971)

1999-11-18 18:20:59# 125. lþ. 29.5 fundur 161. mál: #A Seðlabanki Íslands# (lausafé lánastofnana) frv. 96/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða að fella út úr lögum um Seðlabanka grein þar sem kveðið er á um hvernig reglur skulu settar um laust fé. Áður hefur komið upp umræða um að nauðsyn væri á að breyta reglunum og í sjálfu sér er ekkert við það að athuga. Það sem ég hef þó áhyggjur af er að efh.- og viðskn., sem á sínum tíma fjallaði um gildandi reglur, þ.e. í núverandi lögum um Seðlabankann, og setti þær eftir samtöl við bankastofnanir og alla þá sem gáfu umsagnir á sínum tíma, hefur með því að fella þetta algerlega út ekki neina aðkomu að málinu, getur ekki metið hvort reglurnar eru ásættanlegar eða sanngjarnar eða að sanngjarnar kröfur séu gerðar til lánastofnana. Mér fyndist eðlilegt að þarna væri einhvers staðar í lögunum ákvæði þess efnis að þær reglur sem settar eru yrðu kynntar fyrir efh.- og viðskn. eða nefndin hefði einhverja möguleika á aðkomu að málinu þó að að sjálfsögðu sé það Seðlabankans að setja þær reglur og samræma þær þeim nágrannalöndum og þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við og sjálfsagt eðlilegt, miðað við þá þróun sem verið hefur á fjármagnsmarkaðnum hjá lánastofnunum, að breyta gildandi reglum. Þetta er það sem ég vildi benda á við 1. umr. að þarna er verið að fella úr gildi möguleika Alþingis til að koma með einhverjum hætti að því hvaða reglur eru settar um laust fé í lánastofnunum og ég tel það frekar miður.