Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:27:07 (1973)

1999-11-18 18:27:07# 125. lþ. 29.6 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er auðséð að hv. þm. hafa ekki jafnmikinn áhuga á þeim málum sem eru nú til umræðu og því sem var fyrr á dagskrá. Þó er þetta angi af máli sem getur haft veruleg áhrif á stöðu Íslands í framtíðinni vegna þess að þetta tengist samræmingaraðgerðum sem eru innan Evrópusambandsins í Efnahags- og myntbandalaginu og upptöku sameiginlegrar myntar.

Það er alveg klárt að án þess að vera þátttakendur í Efnahags- og myntbandalaginu munum við þurfa að lögtaka ekki bara þessa tilskipun heldur ýmsar sem á undan eru komnar og jafnvel aðrar sem á eftir munu koma þrátt fyrir að við höfum mjög litla möguleika til að hafa áhrif á þróun þessara tilskipana og innihald þeirra. Það er afar erfitt fyrir mig að lesa þetta frv. og reyna að meta hvort innihaldið er gott eða slæmt. Umræðan um þetta mál og ýmis önnur hlýtur alltaf að verða mjög ófullnægjandi hér í þingsalnum og byggð á lítilli þekkingu einfaldlega vegna þess að umræða hefur ekki átt sér stað um stöðu Íslands innan Evrópu og gagnvart Evrópumyntinni sem tekin er upp og það virðist bara ekki mega ræða það hér.

Ef farið er fram á að farið sé yfir þessi mál, skýrslum skilað og Alþingi taki upp ítarlega umræðu um stöðu Íslands innan Evrópu og í Evrópusamstarfinu og gagnvart þessari sameiginlegu mynt, þá nálgast það landráð, virðulegi forseti, ef marka má orð ýmissa hv. þm.

Engu að síður er það svo að við erum með um 80% af löggjöf Evrópusambandsins hér sem við þurfum að lögtaka og þessi tilskipun sem hér er komin í frv. til laga er bara ein af þeim. Forsendurnar til þess að meta frv., meta lögin og virkni þeirra innan lands og milli landa er afar takmörkuð vegna þess að undirbúningurinn hefur ekki verið nægjanlegur af okkar hálfu. Við hljótum að fara fram á það að hæstv. viðskrh. skili Alþingi skýrslu um stöðuna gagnvart Evrópumyntinni og Efnahags- og myntbandalaginu, --- skýrslur hafa verið unnar en engin endanleg niðurstaða er fengin sem sett hefur verið fram --- og Alþingi hlýtur a.m.k. að leggja fram þá kröfu að hæstv. viðskrh. skili okkur munnlegri eða skriflegri skýrslu um stöðuna.

[18:30]

Það hefur verið ákveðinn styrkur fólginn í því fyrir okkur að Norðurlandaþjóðirnar hafa staðið saman utan þessa bandalags. En nú hafa þær fréttir verið birtar í Financial Times og síðan var það tekið upp í DV í dag, að forsætisráðherra Svíþjóðar er þeirrar skoðunar að Svíar eigi að ganga strax í Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Hann orðar það þannig, með leyfi forseta, ef marka má blaðafregnir:

,,Hann sagði að í stöðunni væru tveir möguleikar: ,,Annaðhvort göngum við núna í EMU eða við göngum síðar í EMU.````

Eftir að hann lét þessi ummæli falla styrktist sænska krónan verulega og ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkaði. En verði þetta að veruleika sem verður kannski ekki alveg á næstu vikum eða næstu mánuðum, þá hljóta Danir að velta fyrir sér hver þeirra staða er og hvað þeir eigi að gera og þá þrengist heldur hagur Noregs og Íslands. Burt séð frá þessu erum við í þeirri stöðu að við erum að afgreiða þessi frv. til laga, tilskipanir Evrópusambandsins, án þess að mínu mati að hafa til þess nægjanlega þekkingu og rök.

Frv. sjálft er vel úr garði gert og getur sannarlega haft áhrif fyrir þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum innan Evrópu. Eitt af því sem við þurfum reyndar að hugsa um er að þessar samræmdu reglur hljóta að koma þeim fyrirtækjum sem eiga viðskipti á Evrópumarkaði til góða og vera nauðsynlegar að því leyti. Ef staðan er sú að stór hluti okkar fyrirtækja --- þar sem við eigum mjög mikil viðskipti við fyrirtæki innan Evrópu sem er fullkomlega eðlilegt --- er farinn að vera með viðskipti sín að fullu í evrunni og staðan jafnvel þannig að allar greiðslur munu eiga sér stað í þessari mynt nema hugsanlega launagreiðslur þá er þetta framtíð sem við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur, þ.e. hvernig við bregðumst við og hvaða skref við þurfum að stíga.

Þessi umræða á að fara fram með hagsmuni heildarinnar í huga, með hagsmuni atvinnulífsins í huga. Nú er kannski hvorki staður né stund --- en þó hvorki betri né verri heldur en önnur --- að taka þessa umræðu upp hér og sannarlega sakna ég þess að ekki eru fleiri hv. þingmenn í salnum. Það verður að rannsaka heildstætt stöðu Íslands. Hæstv. utanrrh. hefur boðað að hann sé að láta taka saman hlutlausa skýrslu um stöðu okkar gagnvart Evrópu á vegum ráðuneytisins. En áður en frv. er afgreitt, þá tel ég mjög nauðsynlegt að við fáum frá hæstv. viðskrh. a.m.k. yfirlit yfir stöðu okkar, um það hvert stefni og þær viðræður sem hafa átt sér stað. Hver er aðkoma okkar að því að móta þá stefnu sem felst t.d. í frv.? Vafalaust er það svo að þetta verður fyrirtækjum að einhverju leyti til góða. En hver verður aðkoma þeirra eða möguleikar okkar til þess að hafa áhrif á þessa umræðu? Ég trúi því ekki að nokkur hv. þm. mótmæli því af sannfæringu ef farið er fram á þessa umræðu um stöðu okkar og á þróun sem getur haft veruleg áhrif á allt íslenskt samfélag núna á næstunni. Við erum búin að ræða byggðamál í allan dag og í gær og fyrradag og vissulega er byggðavandinn mjög mikill innan lands. Vissulega er hann það. En við megum heldur ekki haga okkur þannig að byggðavandi framtíðarinnar gæti hugsanlega orðið staða Íslands í samfélagi þjóðanna og staða okkar sérstaklega í samstarfi innan Evrópu. Ef stærstur hluti okkar viðskipta er við þær þjóðir sem eru að taka upp myntina, þ.e. ef Svíar taka ákvörðun um að ganga í Efnahags- og myntbandalagið og Danir hugsanlega á eftir, þá verðum við náttúrlega að vera undir það búin að móta afstöðu okkar. Við verðum að vera búin að ræða þessi mál. Skoða þá möguleika sem eru í stöðunni og hvert þeir munu leiða okkur og þá um leið hvað sé best fyrir íslensku þjóðina og heildarhagsmuni hennar. Og það að óska eftir umræðu til þess að geta tekið afstöðu til einstakra mála út frá þekkingu og að ræða þau út frá skynsamlegum rökum, eru ekki landráð. Það er einmitt gert af umhyggju fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar og atvinnulífs hér með hagsmuni heildarinnar í huga.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma þessu til skila þar sem við erum enn einu sinni að taka til umræðu tilskipun, tilskipun sem við höfum hugsanlega ekki haft mikla aðstöðu til að móta og hefur orðið til vegna þess að Evrópuþjóðir þær sem eru í Efnahags- og myntbandalaginu eru að samræma reglur sínar. Við megum bara ekki fljóta sofandi inn í þetta samstarf þannig að niðurstaðan verði sú að okkur sé ævinlega og ávallt stillt upp við vegg. Það er kominn tími til að við vöknum upp af þessum þyrnirósarsvefni og ræðum af alvöru stöðu okkar innan Evrópusambandsins og mótum afstöðuna í sameiningu. Þetta segi ég ekki síst í ljósi þess að íslenska þjóðin hefur áður klofnað í tvennt vegna utanríkismála. Sá klofningur varð þvert á stjórnmálaflokka, þvert á félagasamtök, fjölskyldur og vinahópa. Menn stóðu gráir fyrir járnum í þeirri umræðu. Við megum ekki láta það henda gagnvart þessum þætti utanríkismálanna og þess vegna verðum við að standa þarna afar vel að verki. Við í efh.- og viðskn. munum að sjálfsögðu fara í málefnalega umræðu um innihald frv. En þetta er samt sem áður allt saman angi af sama meiði.