Fjármálaeftirlit

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 19:06:09 (1981)

1999-11-18 19:06:09# 125. lþ. 29.9 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[19:06]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er einkum tvennt eða öllu heldur þrennt sem ég skal reyna að svara sem hv. þm. spurði um. Fyrst af hverju útgjalda- eða tekjuöflunarþátturinn, sem er í sérfrv., væri ekki inni í þessu frv. Meginástæðan er sú að við teljum mikilvægt að skapa öryggi í kringum Fjármálaeftirlitið. Þar af leiðandi er óæskilegt að lögum um Fjármálaeftirlitið verði breytt á hverju ári en miðað er við að gjaldtöku verði breytt með lögum frá þinginu hverju sinni. Þess vegna fannst okkur betra að hafa það í sérstöku frv. þannig að það væri öruggara og væri ljóst að menn ætluðu að breyta slíku frv. á hverju ári.

Varðandi dagsektirnar þá finnst mér rétt að skoða það sem hv. þm. bendir á í þeim efnum og tala hins vegar fyrir þeim sjónarmiðum að ef sektir sem þessar eiga að hafa áhrif þá þurfa þær að vera svolítið beittar og hvassar þannig að menn forðist að lenda í slíku.

Í þriðja lagi varðandi heimildir til að setja menn inn í fyrirtækin, er það þannig í gildandi lögum að Fjármálaeftirlit eða bankaeftirlitið gat sett menn frá sér til starfa inni í viðkomandi fyrirtækjum. Þar af leiðandi væri Fjármálaeftirlitið að vissu leyti farið að bera ábyrgð á rekstri viðkomandi fyrirtækis en væri jafnframt og um leið eftirlitsaðili sem væri að okkar mati heldur óhentugt og óeðlilegt vegna þess að þá væri eftirlitsaðilinn kominn inn til að reka fyrirtækið og þá væri farið að rugla saman rekstrarhlutverkinu og hins vegar framkvæmdahlutverkinu sem sneri beint að rekstrinum. Þess vegna er gert ráð fyrir því að hægt sé að setja inn í fyrirtækið óháðan aðila sem lúti um leið þeirri eftirlitsskyldu sem hvílir á Fjármálaeftirlitinu og þar af leiðandi er fyrirtækið óháð þó svo að Fjármálaeftirlitið hafi sett viðkomandi aðila inn en hann sé ekki háður Fjármálaeftirlitinu sem slíku. Það er meginhugsunin.