Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:12:32 (1992)

1999-11-22 15:12:32# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Hjálmar Árnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að um sé að ræða flókið mál. En ég hafna þeirri röksemdafærslu sem fram kom hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það, þ.e. sú staðreynd að þetta væri flókið mál, væri rök fyrir því að málið skyldi ekki fara til hv. iðnn. Ég hafna því alfarið og vísa því heim til föðurhúsanna. Málið er hins vegar flókið. Það snertir virkjunarmál, tæknimál, efnahagsmál, byggðamál og þannig má áfram telja. En það snertir líka umhverfismál og því lýsi ég þeirri skoðun minni yfir sem formaður iðnn. að komi málið til hv. iðnn., þá munum við af virðingu við umhvn. vísa umhverfisþættinum til afgreiðslu og umsagnar hjá hv. umhvn. þingsins. Verði sú leið farin mun umsögnin og sú vinna síðan berast til iðnn. sem þar með á kost á því að skoða málið í heild sinni. Að lokum standa svo hv. nefndarmenn iðnn. og þingið í heild frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu í málinu.