Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:34:48 (2002)

1999-11-22 15:34:48# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52 1989, sbr. lög nr. 47 1990. Frv. þetta er unnið í umhvrn. í samvinnu við Endurvinnsluna hf. Ástæðan fyrir því að frv. þetta er lagt fram er sú að tryggja þarf Endurvinnslunni hf. rekstrargrundvöll þannig að félagið geti staðið undir kostnaði við þau verkefni sem það hefur tekið að sér lögum samkvæmt.

Á undanförnum árum hafa efnisleg skilyrði til endurvinnslu einstakra umbúðategunda drykkjarvara raskast verulega eins og ég mun gera grein fyrir. Endurvinnslan hf. var stofnuð á árinu 1989 á grundvelli laga nr. 52/1989 og hefur ríkissjóður átt aðild að félaginu og fulltrúa í stjórn þess frá upphafi. Af hálfu Endurvinnslunnar hf. hefur komið fram að fyrirsjáanlegt tap verði á rekstri félagsins og að engar horfur séu á að ástandið muni breytast að óbreyttum lögum. Tekjur Endurvinnslunnar eru samkvæmt lögum nr. 52/1989 annars vegar af skilagjaldi vegna þeirra umbúða drykkjarvara sem ekki er skilað til Endurvinnslunnar hf., en skilagjald ber að leggja á allar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr málmi, gleri og plastefni hvort sem þær eru innfluttar eða framleiddar eða átappaðar hér á landi. Hins vegar fær Endurvinnslan tekjur af umsýsluþóknun en hún er lögð á framangreindar drykkjarvörur til viðbótar skilagjaldi og er fjárhæð hennar 5% af skilagjaldi í dag.

Helstu breytingar sem gerðar eru tillögur um í frv. þessu er hækkun umsýsluþóknunar á umbúðir úr stáli, gleri og plastefni en lækkun á umbúðir úr áli. Einnig að tekið verði upp það fyrirkomulag að hafa mismunandi fjárhæð umsýsluþóknunar eftir tegund einnota umbúða. Ástæður fyrir því að þessar breytingar eru lagðar til eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi var á undirbúningstíma fyrir setningu laga nr. 52/1989 reiknað með miklum tekjum af sölu áldósa. Álverð var hátt á síðari hluta níunda áratugarins en hefur síðan verið mjög sveiflukennt. Á undanförnum árum hefur álverð verið lágt. Tekjur Endurvinnslunnar hf. af áldósum hafa verið allmiklar öll árin sem félagið hefur verið í rekstri en þó langt frá því að vera jafnmiklar og traustar og reiknað var með þegar forsendur reksturs félagsins voru metnar í upphafi.

Í öðru lagi gefa plastflöskur litlar tekjur nú. Horfur á verðþróun eru slæmar vegna ástands á heimsmarkaði.

Í þriðja lagi hefur samsetning umbúðategunda breyst verulega frá því að lögin voru sett. Upphaflega var gert ráð fyrir að hlutfall áldósa af seldum einnota drykkjarvöruumbúðum yrði 70--80%, en þá var ekki reiknað með söfnun og endurvinnslu eða eyðingu glerja. Hefur hlutfall áls reynst mun lægra en búist var við og hafa einkum plastflöskurnar aukið verulega hlut sinn á markaðinum á kostnað áldósanna. Gera má ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram.

Í fjórða lagi hafa skil umbúða miðað við sölu verið mun meiri en búist var við, eða 84--86% síðustu ár.

Í fimmta lagi hefur Endurvinnslan hf. beitt sér fyrir aukinni þjónustu á höfuðborgarsvæðinu til að auðvelda og auka skil umbúða. Gerður var samstarfssamningur við Sorpu haustið 1998 um móttöku skilagjaldsskyldra umbúða á öllum átta móttökustöðum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu.

Framangreind atriði hafa verulega breytt rekstrarforsendum Endurvinnslunnar hf. miðað við það sem upphaflega var gert ráð fyrir og einnig miðað við reksturinn undanfarin ár. Rekstraráætlun fyrir árið 1999 gerir ráð fyrir verulegu tapi og ekki eru horfur á að ástandið muni batna að óbreyttri löggjöf. Það þykir því einsýnt að umsýsluþóknun þurfi að hækka frá því sem lög nr. 52/1989 kveða á um til að tryggja Endurvinnslunni hf. rekstrargrundvöll. Samkvæmt frv. er lagt til að við hækkunina verði umsýsluþóknunin mishá eftir tegundum umbúða eins og gert er á Norðurlöndunum.

Byggist þessi tillaga á tvenns konar sjónarmiðum. Í fyrsta lagi er tekið mið af gjöldum og tekjum sem leiða af söfnun og endurvinnslu eða eyðingu hverrar umbúðartegundar fyrir sig þannig að umsýsluþóknun fyrir óhagkvæmari tegundirnar verði hærri. Í öðru lagi er ýtt undir notkun vistvænna umbúðategunda með því að hækka umsýsluþóknun umbúðategunda sem erfitt er að endurvinna en það ætti að draga úr notkun þeirra. Lagt er til að umsýsluþóknun hækki frá því sem gildandi lög kveða á um nema umsýsluþóknun fyrir umbúðir úr áli sem lækkar.

Ef frv. þetta verður að lögum mun umsýsluþóknun ekki lengur verða prósenta af skilagjaldi heldur ákveðin sjálfstætt fyrir hverja umbúðategund.

Í frv. er lagt til að gjaldtaka vegna skilagjalds verði fastákveðin krónutala eða sú fjárhæð sem skilagjald nemur í dag á einnota umbúðir úr áli, gleri og plasti sem er 5,63 kr. án virðisaukaskatts. Verði frv. þetta að lögum mun fjárhæð skilagjalds vegna stálumbúða hins vegar lækka úr 8 kr. í 5,63 kr. Rétt þykir að skilagjald sé það sama fyrir allar tegundir umbúða en umsýsluþóknun mishá eftir tegund umbúða.

Jafnframt er lagt til að fjárhæð skilagjalds verði ekki lengur tengd við breytingar á verði drykkjarvara heldur við breytingar á vísitölu neysluverðs. Drykkjarvörumarkaðurinn lýtur sérstökum lögmálum, t.d. lækkaði almennt verð drykkjarvara verulega fyrstu árin eftir að lög nr. 52/1989 voru samþykkt. Ekki þykja rök fyrir því að tengja þróun skilagjalds eingöngu við verð drykkjarvara.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu breytingar sem fram koma í frv. Ég legg áherslu á að markmiðið með frv. þessu er m.a. að stuðla að notkun vistvænna umbúðategunda. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.