Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:45:22 (2004)

1999-11-22 15:45:22# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Skilagjöld af því tagi sem við erum ræða um eru partur um umhverfisskattastefnu. Ég hefði talið að það væri e.t.v. fróðlegt fyrir okkur sem sitjum í umhvn. þingsins að nota þetta tækifæri til að fá vitneskju hjá hæstv. ráðherra um það hvort hún hyggist beita sér í einhverjum mæli fyrir því að umhverfisskattar verði teknir upp víðar en bara á þessu sviði. Ég vísa til þess, herra forseti, að á heimasíðu ráðuneytisins sem hæstv. ráðherra veitir forstöðu er að finna afskaplega fína skýrslu um umhverfisskatta þar sem m.a. er lagt til að farin verði sú leið að taka þá upp á öðrum sviðum. Sér í lagi vek ég athygli á því að þar er beinlínis lagt til af hálfu skýrsluhöfunda að hæstv. umhvrh. beiti sér fyrir því að þær fjórar tegundir gjalda sem lagðar eru á eldsneyti verði sameinaðar í eitt. Þar kemur líka fram sú niðurstaða skýrsluhöfunda að ólíklegt sé að það leiði til þess að heildarálögur á þá sem nota ökutæki sem knúin eru af þessum eldsneytisgjöfum muni aukast. Þetta hefur stundum komið upp í umræðum í þinginu og fyrst við erum á annað borð að ræða skilagjöld og þar með umhverfisskatta væri fróðlegt ef hæstv. umhvrh. mundi nota ferðina og greina okkur frá þessu.

Það mál sem hæstv. ráðherra beinir nú til okkar er ekki jafneinfalt og það lítur út fyrir í fyrstu. Það er mjög viðkvæmt þegar komið er til þingsins og það beðið um að hækka tekjur fyrirtækis sem býr við lögbundna einokun. Það er það sem er í rauninni að gerast í þessu máli. Ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að þetta fyrirtæki hefur staðið fyrir afskaplega þarfri hreinsunarherferð á landinu og óhætt er að fullyrða að umgengni við landið hefur tekið stakkaskiptum eftir að það varð að veruleika. Við sjáum ekki lengur tómar dósir og umbúðir af þeim toga sem fellur undir starfssviðs fyrirtækisins á heiðum uppi og í miklu minni mæli á fjörum en áður og það er auðvitað vel. En í eðli sínu er málið þannig að í rauninni er verið að biðja um að fyrirtæki sem býr við lögbundna einokun fái heimild í lögum til að auka tekjur sínar og þá verða menn auðvitað að staldra við og kanna mjög rækilega áður en fallist er á það. Það mun umhvn. þingsins auðvitað gera.

Ég tók eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra gat um það í framsögu sinni að þetta stafaði af því að breyting hefði orðið á samsetningu þeirrar vöru sem veltur í gegnum fyrirtækið. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvenær hófst sú þróun?

Hæstv. ráðherra sagði jafnframt að rekja mætti aukinn kostnað til þess að farið hefði verið í sérstakt átak í samvinnu við Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er þá ekki sanngjarnt, ef um er að ræða hreinsunarátak sem virðist hafa verið gert í samvinnu við borgarfyrirtæki, að Reykjavíkurborg komi með einhverjum hætti að þessu máli? Ég velti því bara upp, herra forseti.

Í þriðja lagi spyr ég hvort það tap sem nú er fyrirséð af rekstraráætlun fyrirtækisins sé fyrst að verða til núna eða hvort það hafi verið undangengin ár, hvort um sé að ræða halla sem er uppsafnaður.

Í fjórða lagi, herra forseti, velti ég því fyrir mér hvort ekki hafi komið til umræðu innan ráðuneytisins eða eftir atvikum í stjórn fyrirtækisins að reyna að bæta stöðu fyrirtækisins með því að víkka út svið þess. Ég á við, herra forseti, að víkka út ramma þessara laga þannig að hann nái til fleiri umbúða en þeirra sem núna fara í gegnum fyrirtækið. Það eru ýmiss konar umbúðir sem tengjast ýmsum afbrigðum mjólkurvarnings sem eru kannski að þreyta okkur stundum, sem erum að puða á heiðum uppi. Hafa menn velt því fyrir sér að auka veltu fyrirtækisins og auka þar með heildartekjurnar með því að láta það sýsla með fleiri tegundir af varningi? Ég held að það hljóti að vera leið sem menn velta fyrir sér áður en þeir ákveða með hraði að hækka þarna gjöld sem munu að sjálfsögðu leiða til þess að sú þjónusta sem almenningur er að greiða fyrir, því vissulega er þetta þjónusta, mun hækka.

Mér finnst sem sagt, herra forseti, að þetta sé ekki að öllu leyti algjörlega sjálfgefið. Ég man ekki lengur hversu mikið ríkið á í þessu fyrirtæki en mig langar að nota ferðina, herra forseti, og spyrja hæstv. umhvrh. hvort ekki sé kominn tími til að velta því fyrir sér hvort rétt sé að ríkið losi sig við eignarhlutinn í þessu fyrirtæki. Og spyr hæstv. ráðherra líka hvort uppi séu einhvers konar möguleikar og vangaveltur af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. hæstv. umhvrh., að reyna með einhverju móti að koma upp samkeppni í þessari grein. Ef svo væri þá hygg ég að leiða mætti rök að því að e.t.v. mundi hún leiða til þess að umsýslugjaldið þyrfti ekki að hækka í framtíðinni.