Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:59:55 (2006)

1999-11-22 15:59:55# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun, sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram. Ég vil samt gera fyrirvara varðandi upphæðina, 5,63 kr., sem gjaldið skal vera á innfluttar drykkjarvörur og einnota umbúðir úr stáli, áli og gleri. Þetta er fast verð sem einnig á að leggja á vörur sem framleiddar eru hér á landi.

[16:00]

Ég hef engar forsendur til að meta þessa upphæð og af þeirri ástæðu geri ég fyrirvara um upphæðina. Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi að það er spurning hvort það sé ekki flókið að hafa þetta tvíþætt. En hér er þó verið að reyna að stýra neyslunni inn á þá braut að notaðar séu umbúðir sem ódýrara er að farga. Þetta er umhverfisskattur, þ.e. sá greiðir sem mengar. Ég tek undir þessa stefnu og hvet umhvrh. að halda áfram að vinna frekar í þessum málaflokki.

Það er bráðnauðsynlegt að kalla inn í sorpflokkun allar þær tegundir sem hægt er að endurvinna eða farga öðruvísi en að urða. Urðunin er best úrræðið sem við nú höfum. En hún er að mörgu leyti óheppileg vegna mengunar, bæði loftmengunar og mengunar í vatn og allt of rúmmálsfrek miðað við það rúmmál sem gæti verið ef við flokkuðum betur. Það kostar fjármuni að urða og því er frekari flokkun nauðsynleg. Eins og ég sagði áðan þá hvet ég umhvrh. til að halda áfram þessari vinnu.

Þá vil ég nefna verkefnið Staðardagskrá 21. Mörg sveitarfélög hafa hafið þá vinnu, þ.e. staðardagskrárvinnuna, að stuðla að flokkun sorps og endurvinnslu en stranda síðan á úrvinnslunni, þ.e. hvað eigi að gera við sorpið þegar búið er að flokka. Það að öllu leyti óeðlilegt að kenna fólki að flokka en setja svo það sem kemur úr mismunandi gámum þar sem timbrið er sér, járnið sér og plastið sér, allt í sömu urðunina. Það verða að vera ráð til þess að ljúka dæminu. Vissulega er það okkur dýrt að koma förguninni frá okkur, ef endurvinnslan fer fram erlendis, en það er kannski ekki síður einmitt þess vegna nauðsynlegt að setja á slíka skatta þannig að sá greiðir sem mengar.

Við þurfum að halda áfram að vinna að frekari flokkun og vísa ég þar til þess sem gert er víða erlendis. Við endurvinnum t.d. ekki glerílát, en við getum mjög vel tekið allar glerumbúðir sem falla til og flokkað þær sérstaklega með tilliti til þess að þær verði muldar og þá er hægt að nota þær sem urðunarefni, rétt eins og möl, í stað þess að láta þær taka mikið pláss á urðunarstað. Það er sem sé hægt að nýta glerið sem uppfyllingarefni. Ef þetta er gert skipulega þá er þetta einn liður í því að nýta sorp. Fyrir utan það að stefna að betri urðun og umhverfisgjaldi eða umhverfisskatti á allar einnota umbúðir, þá er auðvitað langódýrast að stuðla að þjóðfélagi sem notar ekki svona mikið af einnota umbúðum. Við getum vel án plastumbúða og einnota umbúða verið án þess að auka hættu á sýkingu eða smitleiðum. Nú er allt of mikil notkun, eiginlega ofnotkun á einnota vörum. Við setjum vörur í einar umbúðir, þær umbúðir fara í aðrar plastumbúðir og í þriðja lagi fer þetta svo í plastpokana sem við rogumst með heim. Við lifum orðið í plastpokaþjóðfélagi. Hluti af þeirri umhverfisstefnu sem við ættum öll að styðja er að draga úr notkun á plastpokum og einnota umbúðum. Þar með erum við þá að minnka förgunina.

Það er til fyrirmyndar --- ég held að ég hafi nefnt það áður í ræðustól --- að gera eins og Kaupfélag Héraðsbúa hefur gert, þ.e. að láta framleiða góða, sterka og stóra innkaupapoka sem hvert heimili hefur fengið og sem við notum til þess að bera vörurnar heim og draga úr plastpokanotkuninni. Ég vil láta þetta koma fram því að sveitarfélög og einstaklingar eru að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að minni umbúðamengun.

Að lokum vil ég endurtaka þakkir fyrir þetta frv. og óska ráðherra góðs gengis með málið.