Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:06:35 (2007)

1999-11-22 16:06:35# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta mál. Nokkrum spurningum var beint til mín og ég mun leitast við að svara þeim.

Aðalhugmyndin að baki frv. er sú að núna byggja tekjur Endurvinnslunnar á því að ákveðið skilagjald er af umbúðunum, þ.e. ákveðin krónutala og hún er sú sama fyrir allar umbúðirnar nema fyrir stálið. Þar er hún hærri. Umsýsluþóknunin er ákveðin prósentutala, 5% af þessu skilagjaldi. Þetta er innkoman í dag.

Það sem við leggjum til með frv. er að skilagjaldið verði ákveðin krónutala á allar vörurnar eða allar umbúðirnar --- það sama fyrir stálið, plastið, glerið o.s.frv. --- en að umsýsluþóknunin verði breytileg, hún verði ekki 5% gjald, heldur breytileg krónutala og fari eftir því hvað erfitt er fyrir Endurvinnsluna að losa sig við umbúðirnar, þ.e. hve dýrt er að losna við þær þannig að gjaldið endurspegli raunkostnaðinn betur. Það er einmitt almennt umhverfissjónarmið að menn fari út í að stýra með hagrænum hvötum. Segja má að þetta sé hagrænn hvati og hann sé enn þá nær raunveruleikanum núna en hann hefur verið.

Spurt var hvort hægt væri að einfalda þetta. Ég sé það ekki í fljótu bragði en það má vera að umhvn. finni einhverja leið til þess. Ég held að eðli málsins samkvæmt sé þetta flókið af því að þetta eru nokkrar vörur. Þetta er plast, ál, stál og gler og ef það á að vera sjónarmið að láta verðið endurspegla kostnaðinn við að losna við umbúðirnar þá hlýtur þetta að verða svolítið flókið. Ég tel eðlilegt að umhvn. skoði hvort hægt er að einfalda þetta að einhverju leyti. En ég efast um að það sé hægt vegna eðlis málsins.

Einnig var spurt almennt um umhverfisskattastefnu og hagræn stjórntæki. Það er alveg rétt að skilagjald er hagrænt stjórntæki til þess að hafa áhrif á skil. Það má minna á að við erum að taka svipuð gjöld í gegnum spilliefnanefndina. Það eru sett ákveðin gjöld á spilliefni. En það er einnig til skoðunar núna að útvíkka þetta enn frekar í umhvrn. Verið er að skoða landbúnaðarplastið og skilagjöld á bíla. Það er ekki komið til framkvæmda og ekki inn í þingið en þetta er til skoðunar. Ég held að þróunin á Íslandi sem og í nágrannalöndunum sé almennt sú að menn munu fikra sig inn á þær brautir að nota hagræn stjórntæki í meiri mæli í framtíðinni en við gerum núna til þess að hafa áhrif á samfélagið þannig að það verði umhverfisvænna. Ég tel að við munum ganga inn í þá veröld í framtíðinni.

Hér var líka spurt um hvenær þessi þróun hófst varðandi breytingar á starfsumhverfi Endurvinnslunnar. Þessar breytingar hafa átt sér stað meira eða minna frá því að lögin tóku gildi árið 1989. Álverðið var hátt á síðari hluta níunda áratugarins. Síðan hefur það verið sveiflukennt. Við höfum líka séð mjög miklar breytingar t.d. á hlutfalli áldósa. Í upphafi var reiknað með að það yrði 70--80% af því sem kæmi inn til Endurvinnslunnar en það gekk ekki eftir. Nú er þetta hlutfall 39% á meðan plastið hefur verið að vinna mjög mikið á. Það var varla inni í myndinni í upphafi. Þetta eru því forsendur sem eru að breytast hjá Endurvinnslunni hægt og sígandi.

Einnig var spurt um þá þjónustu sem Endurvinnslan er að bjóða upp á í gegnum Sorpu og hvort Reykjavíkurborg gæti komið eitthvað að þessum málum. Endurvinnslan gerði þjónustusamning við gámastöðvarnar til þess að geta boðið upp á góða þjónustu, til að auka skil þannig að menn þyrftu ekki allir að fara inn í Endurvinnsluna til að losa sig við umbúðirnar heldur gætu farið á hverfastöðvarnar. Endurvinnslan er að greiða fyrir þessa þjónustu þannig að Reykjavíkurborg kemur ekki beint að því nema þannig að Sorpa gerði þennan þjónustusamning. Ég held að þetta sé mjög gott skref og mikil framtakssemi hjá Endurvinnslunni að fara út í þetta.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið dregið fram um Staðardagskrá 21 að við munum fikra okkur inn á meiri og meiri endurvinnslu. Ef maður horfir til framtíðar þá væri best ef allt rusl sem maður flokkaði sjálfur væri einfaldlega sótt heim til manns og síðan fengi maður einhvers konar greiðslur til baka. Þetta er ekkert á næsta leyti en ég sé fram á að þannig verði þetta í framtíðinni, að þá muni menn flokka saman dagblöð, umbúðir, lífrænan úrgang o.s.frv. og síðan verði þetta sótt heim til fólks. Þetta er auðvitað auðveldara í stærri samfélögum þar sem menn búa þétt og flóknara í okkar litla samfélagi, en þetta er örugglega framtíðin.

Varðandi tapið, þá var líka spurt: ,,Hvenær kom tapið fram? Er þetta uppsafnaður vandi?`` Þetta er nýr vandi. Þetta er þetta uppsafnaður vandi? Það var hvorki tap á Endurvinnslunni árin 1997 né 1998 en það er tap á þessu ári. Þetta er því nýtt vandamál sem við erum að taka á. Það verður að koma til lagabreyting til að snúa þessu við. Ég vil sérstaklega lesa upp úr 4. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Við ákvörðun umsýsluþóknunar skal við það miðað að félagið geti staðið undir kostnaði við starfsemina og skilað hluthöfum hóflegum arði af hlutafé.``

Þessi hóflegi arði er 10% arður sem Endurvinnslan hefur verið að greiða sínu hluthöfum. En það er alveg ljóst að ef við breytum ekki lögunum þá mun Endurvinnslan stefna í meira og meira tap miðað við þær forsendur sem nú ríkja.

Ríkið á 17,83% í Endurvinnslunni og það eru engin áform hjá ríkinu um að draga sig út úr rekstri hennar. Það eru engin áform um það. Ég sé satt að segja ekki fyrir mér að þetta form á innheimtu af drykkjarumbúðum fari í nokkurs konar samkeppni á næstunni. Ég efast um að það yrði bót að því að setja þetta á samkeppnismarkað. Ég sé ekki alveg hver ætti að vilja fara út í það þar sem ekki er neinn sérstakur hagnaður á þessari starfsemi. Endurvinnslan hefur staðið sig afburða vel, náð afar góðum árangri. Okkar kerfi hefur sýnt betri árangur en þau kerfi sem eru við lýði í nágrannalöndum okkar. Við innheimtum 80--90% af umbúðum. Það hefur enginn náð slíkum árangri nema við þannig að ég tel að við séum með mjög gott kerfi þó við þurfum að breyta því til þess að það standi undir sér.

Að lokum vil ég koma aðeins inn á það sem einn hv. þm. sagði um þessar einnota umbúðir, þ.e. að það hefði verið rangt hjá okkur að fara inn á þessa braut. En ég vil benda á það varðandi glerflöskurnar sem eru fjölnota, að einungis Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. innheimtir eða kaupir aftur þær bjórflöskur sem þeir tappa á þannig að allar aðrar glerflöskur eru muldar niður og notaðar eins og hér kom fram hjá einum hv. þm., í fyllingarefni á sorphauga og er reyndar mjög gott sem slíkt. Gler nýtist ágætlega en er nánast ekkert endurnýtt.