Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:15:40 (2008)

1999-11-22 16:15:40# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög skýr svör við flestum þeim spurningum sem ég a.m.k. lagði fram. Það kom fram að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að engar sérstakar ástæður séu fyrir hið opinbera að draga sig út úr rekstri Endurvinnslunnar hf. En ég velti því samt fyrir mér án þess að það skipti meginmáli, er einhver sérstök ástæða fyrir því að ríkið eigi áfram þennan hlut ef hægt er að losa ríkið við hann? Menn veltu því fyrir sér fyrir nokkrum árum að selja hlut ríkisins, þá var það ekki hægt vegna þess að ákveðin málaferli voru í gangi sem þurfti að ganga frá út af tilteknum atriðum sem vörðuðu Endurvinnsluna. En hvað er það, herra forseti, sem veldur því að hæstv. ráðherra telur að við þurfum endilega að eiga þetta? Út af fyrir sig væri fróðlegt að fá svör við því þó að ég muni ekki ganga sérstaklega harkalega eftir þeim. Það sem mér þótti merkilegt við ræðu hæstv. ráðherra er að hún upplýsir að ekki hefur verið neitt tap á rekstri Endurvinnslunnar, eins og ég skildi hæstv. ráðherra, en rekstraráætlunin gerir ráð fyrir að ef ekki verður gripið í taumana með lagasetningu þá sé líklegt að tap verði á rekstrinum á næsta ári. Herra forseti, hvað gerist þegar fyrirtæki í venjulegu innlendu samkeppnisumhverfi standa andspænis því að líklegt verði að tap verði á rekstrinum? Þau geta yfirleitt ekki hlaupið til ríkisins og beðið ríkið um að setja lög sem hækka tekjurnar. Þau verða að hagræða í rekstri. Ég spyr því, herra forseti, er með einhverju móti búið að ganga úr skugga um að Endurvinnslan geti ekki hagrætt í rekstri? Ég fæ satt að segja pínulítinn hroll þegar ég stend andspænis þeirri staðreynd að um leið og við blasir að endar muni ekki ná saman í rekstrinum, þá er hlaupið til okkar og við beðin um að breyta lögum til að tekjurnar hækki. Áður en það er gert finnst mér að það þurfi að liggja kristaltært fyrir að ekki sé með nokkru móti hægt að hagræða í rekstri þessa fyrirtækis til að auka tekjurnar.