Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:17:57 (2009)

1999-11-22 16:17:57# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra atriðið, þ.e. hvort að ríkið eigi að eiga hlut í Endurvinnslunni eða ekki, þá hef ég engar sterkar skoðanir á því. Það er ekkert sáluhjálparatriði fyrir mig að ríkið eigi þarna hlut eða ekki. Hins vegar hefur þetta fyrirtæki gengið vel. Það er hugsanlegt að í byrjun hafi ríkið viljað eiga hlut í fyrirtækinu til að geta aðstoðað það við að komast á laggirnar og vera með í ráðum, en það má vel vera að rök séu fyrir því að endurskoða það. En við gerum engar tillögur um það hér og nú, það er mál sem þyrfti miklu meiri skoðunar við.

Hvað varðar tapið þá kemur fram í geinargerð með frv. að Endurvinnslan hf. hefur hagrætt verulega hjá sér að undanförnu og ég tel eðlilegt að umhvn. leiti sér upplýsinga þar um þegar hún fer yfir málið, en alla vega er það mat ráðuneytisins, miðað við þær viðræður sem við höfum átt við Endurvinnsluna, að búið væri að hagræða þar eins mikið og hægt væri. En það er fyrirsjáanlegt tap hjá þeim ef menn breyta ekki þessari tekjuöflun. Eins og hér er búið að draga fram í umræðunni eru forsendurnar fyrir rekstrinum brostnar ef við breytum ekki þeim gjöldum og tekjum sem Endurvinnslan fær, vegna þess að allar forsendurnar hafa brostið, hlutfall áls hefur lækkað, hlutfall plasts hefur hækkað o.s.frv. Ef þetta væri fyrirtæki á samkeppnismarkaði þá mundu þeir væntanlega bara hækka gjöldin til að geta staðið undir rekstri. En í þessu tilviki vegna þess að þetta er ekki fyrirtæki á samkeppnismarkaði þá þurfum við að koma með lagabreytingar til að fyrirtækið standi undir sér og ég tel það eðlilegt af því það væri mikill skaði ef fyrirtækið færi í verulegt tap og þyrfti að leggja upp laupana.