Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:30:23 (2011)

1999-11-22 16:30:23# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjuefni að lokið hefur verið við endurskoðun á lögum um málefni aldraðra. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra ber samkvæmt lögum að endurskoða lög um málefni aldraðra á fimm ára fresti. Nú eru liðin tíu ár frá því að þau lög voru sett sem nú eru í gildi, þannig að þetta er vissulega tímabært. Ég fagna því að þeirri vinnu er lokið.

Mig langar við 1. umr. um frv. að grípa niður í nokkra þætti í frv. og vil byrja á að minnast aðeins á eitt atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni, þ.e. að skilgreiningin á orðinu aldraðir væri miðuð við það þegar menn byrja að taka ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Ég vil benda á að það er nokkuð stór hópur fólks hér á landi sem hefur töku ellilífeyris fyrr, en það eru sjómenn. Ellilífeyrisaldur þeirra er sextíu ár en samkvæmt þessum lögum teljast þeir ekki aldraðir, þó að þeir séu komnir á ellilífeyri, fyrr en sjö árum eftir að þeir hefja töku ellilífeyris. Reyndar hefur það verið svo að eldri borgarar hafa yfirleitt miðað við sextíu ára aldurinn í sambandi við félagsþátttöku sína. Ég ætla nú ekki að gera neinar sérstakar athugasemdir við þetta en vil benda á þetta atriði.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að ráðherra skipi fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra fyrir hverjar almennar alþingiskosningar og í 5. gr. er tiltekið hver verkefni þessarar samstarfsnefndar um málefni aldraðra skuli vera. Ég verð nú að segja eins og er að ég hef áhyggjur af því að þarna sé verið, eftir því sem reynslan sýnir, að tala um verkefni sem eru meira í orði en á borði, a.m.k. hvað varðar 1. gr. þar sem talað er um að samstarfsnefnd um málefni aldraðra skuli vera heilbr.- og trmrh. og ríkisstjórninni til ráðuneytis um málefni aldraðra. Ég vil í því tilliti benda á svar við fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. ráðherra á dögunum þar sem ég spurðist fyrir um hvernig samráðsnefnd aldraðra hefði komið að þeim málum sem verið hafa til framkvæmda á ári aldraðra. Svari við þeirri fyrirspurn var dreift í þinginu í síðustu viku. Spurningarnar sem ég lagði fram til hæstv. ráðherra eru: Hvað hefur verið gert á vegum ráðuneytisins sérstaklega í málefnum eldri borgara á ári aldraðra? Hefur verið haft samráð við samráðsnefnd aldraðra? Ef svo er, hvenær og af hvaða tilefni?

Í svari hæstv. ráðherra kemur í ljós að samráðsnefnd stjórnvalda og samtaka aldraðra hefur ekki verið kölluð til fundar með framkvæmdanefnd árs aldraðra. Og það er einn og hálfur mánuður eftir af ári aldraðra. Samkvæmt þessu svari hefur samráðsnefndin aldrei verið kölluð saman til skrafs og ráðagerða, eða leitað álits hjá henni um það sem gera skuli á ári aldraðra. Hér er ætlunin að setja í lög að samstarfsnefnd um málefni aldraðra skuli vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra. Ég spyr, ef þetta er reynslan, er þá mikil ástæða til að ætla að leitað verði ráða hjá þessari samráðsnefnd í framtíðinni ef svona hefur verið staðið að málum á ári aldraðra? Ég hef ákveðnar efasemdir um það og óttast satt að segja að þarna séu sem sagt ætlanir stjórnvalda, a.m.k. þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr, meira í orði en á borði. Þó að nefndin sé með mjög mikilvæg verkefni, og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta eru verulega stór mál sem nefndinni er ætlað að vinna þar sem er Framkvæmdasjóður aldraðra og tillögur um úthlutanir úr sjóðnum, það eru ekkert smáverkefni, þá hef ég áhyggjur af því að nefndin verði notuð sem nokkurs konar stuðpúði, þ.e. aldraðir sem hafa haft greiðan aðgang að stjórnvöldum, t.d. baráttuhópar aldraðra eins og aðgerðarhópurinn og önnur samtök aldraðra sem hafa haft greiðan aðgang að stjórnvöldum, þingmönnum og þeim sem fara með málefni aldraðra, að farið verði að ýta þeim sem vilja koma baráttumálum á framfæri til samstarfsnefndarinnar og hún verði notuð sem stuðpúði. Þetta er ákveðið áhyggjuefni sem ég deili með ýmsum forsvarsmönnum aldraðra sem hafa skoðað þetta frv. Ég vonast nú til að svo verði ekki og að stjórnvöld geti ekki skýlt sér á bak við þessa samráðsnefnd í ákveðnum málum. Herra forseti. Þetta er áhyggjuefni sem ég vil koma hér á framfæri við þessa umræðu.

Af því að í 9. gr. er fjallað um framkvæmdasjóðinn, þá langar mig til að geta þess að undanfarið hafa fjármunir sjóðsins farið æ meira í rekstur stofnana. Ég er hér með yfirlit yfir undanfarin fjögur ár og þar kemur fram að sjóðurinn hefur haft um 500 millj. til ráðstöfunar og hefur meiri hluti þess fjármagns farið í rekstur þó að tæpur helmingur hafi farið í uppbyggingu. Ég hef áhyggjur af því, sérstaklega vegna þess hvernig ástandið í hjúkrunarmálum aldraðra er í Reykjavík og hefði ég viljað sjá meiri fjármuni fara í uppbyggingu en nú er. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í heilbr.- og trn. um ástandið á öldrunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þá bíða í nóvember 50 sjúklingar á öldrunarsviði eftir plássi á hjúkrunarheimili, 50 sjúklingar sem teppa sjúkrarúm á öldrunarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna þess að þeir komast ekki á hjúkrunarheimili. Aftur á móti bíða 32 sjúklingar á bráðadeildum Sjúkrahúss Reykjavíkur eftir því að komast inn á öldrunarsviðið og einnig bíða 72 sjúklingar í heimahúsum. Þetta eru tölur bara frá því í þessum mánuði. Og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því og skoða það þar sem við erum að ræða um málefni aldraðra og framkvæmdasjóðinn, hvort ekki beri að setja aukið fjármagn í að byggja upp hjúkrunarheimili þannig að þessi vandi sjúkrahúsanna verði leystur, þ.e. að geta flutt sjúklingana yfir í rúm sem henta betur, bæði heilsu og umönnunarþörf slíkra sjúklinga.

Á fundi með fulltrúum frá sjúkrahúsunum í síðustu viku, þar sem fulltrúar í heilbr.- og trn. hittu þá til að fá upplýsingar um málefni sjúkrahúsanna kom fram að ekki er samræmi á milli þeirrar þjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsanna og þeirrar þjónustu sem þarf að veita á sjúkrahúsunum sjálfum, þ.e. þjónustan utan spítalanna í sambandi við heimaþjónustuna er ekki orðin í takt við þá þjónustu sem sjúkrahúsin veita. Og það er nú eitt af því sem verulega þarf að huga að, og komið er að því í 13. gr. frv. um málefni aldraðra þar sem fjallað er um öldrunarþjónustuna.

Ég ætla nú að hlaupa á nokkrum greinum en ég mun náttúrlega koma að þessu máli í hv. heilbr.- og trn. þegar að það kemur þangað. Mig langar til að nefna hér eitt atriði. Ég er með þingmálið eins og það var lagt fyrir þingið á síðasta vetri, þ.e. 123. löggjafarþingi. Ég sé að í 22. gr. kemur fram að vistmenn á öldrunarstofnunum skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða ef þeir hafa tekjur umfram 12.053 kr. Þetta er í frv. eins og það var lagt fyrir í vetur. Aftur á móti sé ég, og fagna því vissulega, að í þessu frv. hafa viðmiðunarmörkin verið hækkuð úr 12.000 kr. rúmum upp í 29.217 kr. Vissulega var þörf á að hækka þetta því það var náttúrlega fyrir neðan allar hellur hvað viðmiðunarmörkin voru lág. Og fær maður margar kvartanir þeirra sjúklinga sem eru á stofnunum og hafa ekki meiri ráðstöfunartekjur en hér eru nefndar. Aftur á móti hefði ég gjarnan viljað fá að vita hjá hæstv. ráðherra við hvað 29.217 kr. eru miðaðar. Ég hefði talið að fjárhæðin þyrfti að vera hærri sem menn mættu hafa áður en þeir þyrftu að fara að greiða fyrir vist á stofnun, og er það reyndar í takt við þær niðurstöður sem komu fram hjá Stefáni Ólafssyni á föstudaginn var þar sem hann kynnti skýrslu eða bók Tryggingastofnunar um Íslensku leiðina. Þar kemur fram því miður að viðmiðunarmörkin eru allt of lág og farið er að skerða bætur allt of snemma og menn eru látnir greiða fyrir þjónustu, t.d. þjónustu við aldraða þó að þeir hafi ekki nema smánarlegar greiðslur í tekjur.

Herra forseti. Ég held að það sé nú ekki mikið fleira sem ég vil gera athugasemdir við í 1. umr. um þingmálið sem vissulega er löngu tímabært að komi hér til þingsins og fái umfjöllun. Ég vil bara geta þess vegna umræðu um málefni aldraðra að það er kannski ekki þessi rammi sem er áhyggjuefni manna og aðaláhyggjuefni mitt heldur er aðaláhyggjuefni mitt það, og hefur verið lengi í málefnum aldraðra, hvernig velferðarkerfi okkar rís ekki undir nafni. Það rís ekki undir nafni sem raunverulegt velferðarkerfi vegna þess hvað aldraðir og öryrkjar fá miklu minni stuðning og miklu lægri bætur en aldraðir og öryrkjar fá í nágrannalöndum okkar. Á þetta hefur auðvitað margoft verið bent og ég fagna því að fagleg úttekt skuli vera komin, eins og gerð var hjá Félagsvísindastofnun að tilhlutan Tryggingastofnunar um þetta mál, sem sýnir fram á að þær staðhæfingar sem við höfum haldið á lofti hér í þingsölum ár eftir ár um ástandið í velferðarkerfinu eru réttar. Og þarna þarf verulega að taka á, hæstv. ráðherra. Og ég býst við að þau mál verði rædd hér frekar. Við munum skoða þetta frv. í hv. heilbr.- og trn. og þá munum við fara nánar út í hina ýmsu þætti en ég fagna því að málið skuli vera komið hingað og ég býst við að það fái faglega umræðu í nefndinni.