Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:45:36 (2012)

1999-11-22 16:45:36# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um málefni aldraðra og það er vel því að það þarf að gæta vel að hag aldraðra. Staða aldraðra er afskaplega misjöfn og búa sennilega fáir hópar í þjóðfélaginu við eins mismunandi kjör. Sumir eru heilsugóðir og sprækir alveg fram undir áttrætt, nírætt. Aðrir eru sjúklingar og afar þreyttir. Sumir eru stóreignamenn og aðrir eiga ekki neitt. Þá eru sumir hátekjumenn með lífeyri upp á fleiri hundruð þúsund á mánuði en aðrir hafa litlar eða engar tekjur úr lífeyrissjóði og hafa ekkert til framfærslu nema úr almannatryggingum.

Að þessum síðasta hóp þarf sérstaklega að gæta, þ.e. þeim sem ekki hafa neinar tekjur nema úr almannatryggingum. Lífeyrissjóðirnir eru þáttur í velferðarkerfinu vegna þess að hið háa Alþingi setti lög árið 1974 sem skyldaði alla launamenn að greiða í lífeyrissjóð og eiga aðild að lífeyrissjóði. Með þeirri lagasetningu urðu lífeyrissjóðirnir ein af meginstoðum velferðarkerfisins. Með lagasetningu 1980 var þetta enn aukið þannig að allir Íslendingar sem hafa tekjur af vinnu sinni eiga að greiða í lífeyrissjóð af þeim tekjum.

Það er svo aftur framkvæmdin sem hefur staðið á sér. Mjög margir hafa ekki greitt í lífeyrissjóð og sumir af ásettu ráði, herra forseti. Þeir hafa komið sér hjá því að greiða í lífeyrissjóð og eru þar af leiðandi núna tekjulausir vegna þess að þeir hafa ekki greitt í lífeyrissjóð. Þeir eru hugsanlega orðnir öryrkjar og fá engar bætur úr lífeyrissjóði þar sem þeir greiddu ekki í lífeyrissjóð, en áttu að gera það, og væru ella með myndarlegan örorkulífeyri úr lífeyrissjóðunum, sérstaklega í þeim sjóðum sem framreikna. Náttúrlega ekki í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þar er ekki framreikningur. Hann er með mjög lélegan örorkulífeyri af ákveðnum ástæðum. En allir aðrir lífeyrissjóðir framreikna og þeir sem hafa borgað í lífeyrissjóð einhvern tíma á starfsævinni eru þar af leiðandi með annaðhvort sæmilegan ellilífeyri eða mjög góðan örorkulífeyri. Þessir lífeyrissjóðir hafa nú starfað í 20--25 ár. Það hefur verið skylda að borga í lífeyrissjóð í 20--25 ár þannig að fólk ætti að vera komið með svona þriðjung af launum sem ellilífeyri nú, þ.e. þeir sem fara á lífeyri núna.

Svo er líka fólk sem aldrei fer á vinnumarkaðinn. Um það bil 3% fólks fer aldrei á vinnumarkað. Þetta er fólk sem hefur verið fatlað frá æsku, öryrkjar sem geta aldrei unnið og að þessum hóp sérstaklega þarf að gæta, herra forseti.

Í kosningabaráttunni síðast hitti ég uppi í Grafarvogi sprækan gamlan karl. Hann er níræður og kom þarna kjagandi út úr stórmarkaðnum með tvo poka og hafði verið að kaupa inn. Ég spurði hann svona eins og ég spyr yfirleitt: Hverju mundir þú vilja breyta ef þú réðir? Þá sagði karlinn: ,,Ég mundi eiginlega ekki vilja breyta neinu. Ég hef það bara mjög gott. Ég hef ágætislífeyri, eftirlaun úr lífeyrissjóði. Svo vinn ég pínulítið líka``, sagði hann. ,,Ég vinn pínulítið við bókband og það gefur mér pínulitlar í tekjur. En það er verst með alla vini mína. Þeir eru allir að drepast. En þið gerið víst ekkert í því``, sagði hann. Ég samþykkti að við gætum ekki breytt því.

Þarna kom hann inn á ákveðið vandamál sem þetta frv. leysir ekki, þ.e. félagsleg einangrun ellilífeyrisþega og sambandsleysi þeirra við fjölskyldu sína.

Herra forseti. Fyrirliggjandi frv. tryggir enn frekar stöðu aldraðra. Það tekur á fjárhagslegri og þjónustulegri stöðu þeirra og það er vel. Það er reynt að tryggja eins og mögulegt er að gamla fólkið hafi það nú gott. (Gripið fram í: Er tekið á fjárhagsstöðunni?) Ég sagði fjárhagslegri stöðu, já. En getur verið að þar með fáum við öll afsökun fyrir því að heimsækja ekki ömmu og afa, mömmu og pabba á elliheimilið? Þar sem ég hef talað við gamalt fólk, þá er þetta aðalvandinn. Aðalvandinn er sá að það er félagslega einangrað frá fjölskyldu sinni.

Við höfum öll svo ósköp mikið að gera alla daga og það er séð svo vel um gamla fólkið á elliheimilunum. Ég þekki gamla konu á elliheimili. Það er komið inn á kvöldin --- þetta er virkilega góð þjónusta --- og spurt: ,,Hvernig hefur þú það``, o.s.frv. Enda segir sú kona og ég á að skila því til hv. þingheims --- hún er margbúin að biðja mig um það --- að hún hafi það bara ósköp gott, hafi aldrei haft það svona gott á ævinni og henni leiðist að heyra þennan bölsýnistón um stöðu aldraðra sem hér kemur sífellt fram. En það sem ég heyri mest kvartað undan er þessi félagslega einangrun. Það kemur bara enginn að heimsækja fólkið.

Í kjördæmavikunni hef ég haft fyrir sið að heimsækja fyrirtæki í Reykjavík. Ég fer í símaskrána og fletti upp. Núna valdi ég þannig að ég valdi fyrirtæki sem áttu afmæli þennan ákveðna dag og lenti þar af leiðandi á einu hjúkrunarheimili. Þangað fór ég í heimsókn. Ég talaði við forstöðukonuna um vandamál heimilisins, föst fjárlög og það að standa við fjárlög --- en maður fær enga aukningu á fjárveitingu næst ef maður heldur sig innan ramma fjárlaganna --- og við fórum í þá umræðu alla. Svo talaði ég um kjör starfsmannanna og allt það. En svo fórum við að tala um hvernig gamla fólkið hefði það. Þá sagði hún þetta sama, að það er oft sem enginn kemur í heimsókn. Sumir fá jú heimsóknir reglulega, einu sinni í mánuði eða eitthvað svoleiðis, jafnvel í viku hverri. En aðrir fá aldrei heimsóknir. Sumir fá heimsóknir um jól og páska, svona endrum og eins. Hún nefndi sérstaklega til sögunnar gamlan mann sem hafði fengið einhvern tíma heimsóknir um jól, en það var nú dottið upp fyrir. Síðan kemur símhringing og honum er boðið í giftingu í fjölskyldunni og þá var nú aldeilis mikið að gera hjá gamla manninum. Nú átti að setja fötin í hreinsun og nú átti að gera þetta og hitt. Svo kemur dagurinn mikli. Þá er snemma vaknað og maðurinn dubbaður upp í sín fínustu föt. Hann fer niður og bíður eftir því að vera sóttur. Svo sagðist forstöðukonan hafa komið niður fjórum tímum seinna. Þá sat gamli maðurinn enn þá þarna hágrátandi. Hvað hafði gerst? Hún hringdi í ofboði í fólkið. Það hafði gleymst að ná í gamla manninn. Það hafði hreinlega gleymst. Og sú sem svaraði, einhver ung stúlka, sagði: ,,Við komum bara seinna.`` Og það var spurt hvort ekki væri hægt að fara með gamla manninn í veisluna. ,,Nei, nei, hún er eiginlega að verða búin.``

Þetta er vandinn, herra forseti. Hvernig breytum við þessu?