Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:25:59 (2017)

1999-11-22 17:25:59# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur leiðrétt það sem hann sagði. En ég skrifaði niður eftir honum að þeir borguðu ekki fyrir neitt. Það er auðvitað rangt. Þeir eru auðvitað að borga fyrir þessa þjónustu með sínum lífeyri. Það má kannski geta þess og láta það koma fram í þessari umræðu að sumir vistmenn á öldrunarstofnunum borga á annað hundrað þúsund kr. fyrir sína vist. Aldraðir eru í rauninni þeir einu í heilbrigðiskerfinu sem greiða fyrir sína heilbrigðisþjónustu og sína sjúkrahúsvist nánast því að eftir að aldraðir sjúklingar hafa verið á stofnun í fjóra mánuði á tveimur árum þá missa þeir sínar lífeyrisgreiðslur og þurfa að fara að greiða. Við skulum halda því til haga.

Varðandi eftirlit með þjónustu á stofnunum þá tek ég undir með hv. þm. að ráðuneytið þyrfti að hafa eftirlit með þeirri þjónustu. Ég geri ráð fyrir því að ráðuneytið geri það. Sérstaklega núna þegar menn eru að fikra sig áfram með nýjar leiðir í rekstri öldrunarstofnana þá þarf eftirlitið að vera meira og ég geri ráð fyrir að það verði meira með veittri þjónustu þannig að samræmi verði í þjónustunni sem veitt er öldruðum vistmönnum á þeim ýmsu stofnunum sem þeir dvelja á.