Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:27:36 (2018)

1999-11-22 17:27:36# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru alltaf a.m.k. tvær hliðar á hverju máli. Ég vildi velta því upp og spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hvort hún telji að það eigi að afnema allar greiðslur aldraðra vegna dvalar á vistheimili eða hjúkrunarheimili. (Gripið fram í.) Þá kemur aftur upp hin hliðin á málinu. Hvers þeir eiga að gjalda sem ekki komast inn á vistheimili eða hjúkrunarheimili, búa úti í bæ og þurfa að greiða fyrir sitt daglega brauð?

Ég held að við getum aldrei komist hjá því að finna einhvern meðalveg í þátttöku aldraðra í þessari þjónustu, bæði með það að leiðarljósi að reyna að byggja hana betur upp en nú er --- við getum alltaf gert góða hluti enn betri --- og líka með því að reyna að jafna stöðu manna. Ég get alveg tekið undir að auðvitað er alltaf umdeilanlegt hve mikið eigi að borga fyrir þessa þjónustu.

Ég ítreka það aftur og segi það enn hér að auðvitað hafa þeir öldruðu Íslendingar sem nú eru komnir að sólsetri síns lífs lagt okkur til fagurt og gott land. Þökk sé þeim. Líklega munum við aldrei gera nógsamlega gott við þá í þökk við það brautryðjendastarf sem þeir hafa unnið að velferðarkerfi okkar.