Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:14:19 (2027)

1999-11-22 18:14:19# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að menn hafi yfirleitt svolítið samráð við sjálfa sig í því sem þeir gera. Engu að síður hafa aðilar í þessari samráðsnefnd ekki verið kallaðir þarna til.

En aftur að viðmiðunarupphæðinni sem er 29.217 kr., 217 kr. Það er viðmiðunarupphæðin. Maður veltir fyrir sér hvernig menn finna þessa upphæð. Hvað gerir gæfumuninn í þessum efnum, 17 kr. eða 200 kr.? Hvernig er þessi upphæð fundin?

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrar viðmiðunarupphæðir muni falla út sem nú eru í reglugerðum og eru mismunandi eftir eðli dvalar og eftir því hvaðan þeir peningar koma sem viðkomandi vistmaður hefur í tekjur. Falla þær viðmiðunarupphæðir út sem eru í reglugerðunum í dag og mun verða miðað við 29.217 kr. í framtíðinni? Úr því mundi ég gjarnan vilja fá skorið vegna þess að miðað hefur verið við fleiri en eina upphæð í reglugerðunum.