Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:16:57 (2029)

1999-11-22 18:16:57# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Frv. þetta er flutt á þskj. 239 og er 205. mál þingsins.

Frv. þetta er flutt til að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að stuðla að hagræðingu í starfsemi stofnana landbúnaðarins með því að hætta starfsemi Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fela öðrum aðilum framkvæmd verkefna sem Framleiðsluráð annast í dag samkvæmt þeim lögum sem lagt er til að taki breytingum með þessu frv.

Á undaförnum árum hefur átt sér stað umræða um starfsvettang Framleiðsluráðs landbúnaðarins vegna ýmissa breytinga á lögum sem leitt hafa til breytinga á verkefnum ráðsins. Má þar nefna að ráðið hefur hætt afskiptum af innflutningi landbúnaðarvara, verðskráningu ýmissa landbúnaðarafurða, þar á meðal kindakjöts, hefur verið hætt. Afurðum hefur fækkað sem hafa opinberlega skráð verð. Þá hefur innheimta sjóðagjalda í landbúnaði verið færð til ríkisins og fer fram með innheimtu opinberra gjalda. Einnig má minna á að innheimta kjarnfóðurgjalds var færð til landbrn. árið 1996 en Framleiðsluráð landbúnaðarins annaðist þá innheimtu áður. Af þessum sökum hafa Bændasamtökin ásamt Framleiðsluráði landbúnaðarins staðið fyrir athugun á vistun verkefna sem Framleiðsluráð landbúnaðarins annast í dag með það í huga að leita leiða til hagræðingar og sparnaðar er af kynni að leiða.

Á búnaðarþingi árið 1998 var tekin ákvörðun um að stofna til tveggja vinnuhópa á vegum bænda sem hefðu það verkefni að fjalla um skipulag og uppbyggingu stofnana landbúnaðarins og leggja fram tillögur um breytingar ef þyrfti. Niðurstaða þeirrar athugunar var að leggja til við landbrh. að færa verkefni Framleiðsluráðs til Bændasamtaka Íslands eftir því sem við gæti átt og að hætta starfsemi Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Í febrúar 1999, í framhaldi af þessari könnun Bændasamtakanna, skipaði þáv. landbrh. nefnd samkvæmt tilmælum þeirra til að gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar til að færa starfsemi Framleiðsluráðs til Bændasamtaka Íslands eftir því sem við gæti átt. Nefndin skilaði tillögum sínum í formi frv. til breytinga á eftirfarandi lögum:

Í fyrsta lagi lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1964, með síðari breytingum, í öðru lagi jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, í þriðja lagi lögum um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991, með síðari breytingum, í fjórða lagi lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum, og í fimmta lagi lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997.

Það frv. sem mælt er fyrir er samkvæmt tillögum áðurnefndrar nefndar. Það felur í sér að meginhluti verkefna Framleiðsluráðs verður færður til Bændasamtaka Íslands sem er með lagabreytingunni fengið í hendur opinbert vald sem er í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Þau tilvik þar sem verkefni Framleiðsluráðs landbúnaðarins eru færð til annarra en Bændasamtaka Íslands eru:

Framkvæmdanefnd búvörusamninga er falið að taka afstöðu til þess hvort afsetja eigi umframframleiðslu mjólkur innan lands eða utan. Framkvæmdanefnd búsvörusamninga gerir tillögur til landbrh. um heildargreiðslumark mjólkur. Landbrn. er ætlað að fylgjast með að reglum sé fylgt við sölu framleiðenda á eigin búvörum.

Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til með þessu frv. verður mikil breyting á stofnanakerfi landbúnaðarins. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur starfað allt frá því árið 1947 er sett voru lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Ráðið var upphaflega skipað þannig að fimm menn voru kosnir af Stéttarsambandi bænda og fjórir skipaðir eftir tilnefningu frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík, Sláturfélagi Suðurlands og mjólkurbúum utan mjólkursvæðis Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga. Í reynd komu fulltrúar afurðastöðva í mjólkuriðnaði þannig frá Mjólkursamsölusvæðinu, sem var nefnt fyrsta verðlagssvæði, og frá mjólkurbúum utan þess, sem var nefnt annað verðlagssvæði, og frá stærstu afurðasölufyrirtækjum bænda sem önnuðust slátrun og markaðssetningu sláturafurða.

Árið 1985 var gerð veruleg breyting á samsetningu Framleiðsluráðs við að fulltrúum í því var fjölgað í 15 sem er skipan þess í dag. Af þeim eru fjórir skipaðir af Bændasamtökum Íslands án tilnefningar, átta eru skipaðir samkvæmt tilnefningu einstakra búgreina, einn samkvæmt tilnefningu Landssamtaka sláturleyfishafa, einn samkvæmt tilnefningu mjólkuriðnaðarins og landbrh. skipar einn fulltrúa í ráðið.

Með þeirri lagabreytingu sem gerð var árið 1985 var dregið úr áhrifum afurðastöðva í landbúnaði innan ráðsins en vægi framleiðenda aukið auk þess sem landbrh. fékk fulltrúa innan þess til að skapa tengsl á milli þess og landbrn.

Starfsemi Framleiðsluráðs landbúnaðarins hefur verið kostuð af lögboðnum gjöldum af búvörum, þóknunum vegna innheimtu, vörslu og ráðstöfun ýmissa sjóða með afmörkuð verkefni og umsýsluþóknun vegna lögboðinna verkefna sem ráðið hefur annast. Fjárhagur þess hefur verið sjálfstæður allt frá því að það var stofnað árið 1947 og fram á þennan dag.

Með lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, voru gerðar verulegar breytingar á framsetningu frv. til fjárlaga við að frv. er sett fram á rekstrargrunni auk þess sem það skal sýna greiðsluhreyfingar ríkissjóðs. Framsetning þessi leiðir það af sér að í fjárlögum skal sýna rekstur aðila sem er fjármagnaður að einhverju leyti með hlutdeild í ríkistekjum, ef lögboðin gjöld eiga að renna til aðila. Í samræmi við þessa breytingu voru lögbundin framlög til Framleiðsluráðs landbúnaðarins tekin í ríkisreikning árið 1998. Á þessu ári eru þau áætluð 116 millj. kr.

Meðal breytinga á lögum sem lagðar eru til með frv. er breyting á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald. Lagt er til að lækka búnaðargjald úr 2,65% af gjaldstofni, sem er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum, í 2,55%. Þetta mun lækka gjaldtökuna um 17 millj. kr. á ári samkvæmt áætlun miðað við verðlag í dag. Það er gert með tilliti til þess sparnaðar sem ætlað er að leiði af því að Bændasamtökin yfirtaki rekstur Framleiðsluráðs og að búgreinafélög njóti ekki svo sem verið hefur stuðnings af tekjum Framleiðsluráðs. Sparnaður við að færa verkefni Framleiðsluráðs til Bændasamtakanna að meginhluta er hins vegar áætlaður nokkuð meiri eða 32 millj. kr. á ársgrundvelli.

Með frv. er gert ráð fyrir að peningalegar eignir Framleiðsluráðs verði lagðar í sjóð sem fylgi þeim verkefnum Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem Bændasamtökin taka yfir og að ávöxtun þeirra verði varið til að standa undir hluta af framkvæmd þeirra. Áætlað er að peningalegar eignir Framleiðsluráðsins nemi um 190 millj. kr. í árslok 1999.

Hæstv. forseti. Ég hef vikið að þeim veigamestu breytingum sem frv. þetta leiðir af sér. Ég mun ekki fara í að skýra þær breytingar sem felast í einstökum greinum frv. en vísa í athugasemdir um einstakar greinar þess. Að lokum legg ég til að að þessari umræðu lokinni verði frv. vísað til hv. landbn. og til 2. umr.