Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:28:25 (2032)

1999-11-22 18:28:25# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem leiðir til hagræðingar að sögn hæstv. landbrh. og í fljótu bragði virðist margt renna stoðum undir þá fullyrðingu hans. Ég vek hins vegar athygli á því, herra forseti, að því miður er þetta mál tiltölulega seint fram komið á hinu háa Alþingi því að gildistaka þeirrar nýsköpunar sem frv. gerir ráð fyrir er 1. janúar nk., eftir rétt rúman mánuð, og hefði eðli máls samkvæmt því verið heppilegra að fá málið til umfjöllunar og afgreiðslu á hinu háa Alþingi fyrr á þessu haustþingi.

Ég hygg hins vegar að í hv. landbn. sé vilji til þess að ganga rösklega til verks og reyna að afgreiða málið á einn eða annan veg fyrir tilskilinn tíma. Eftir því sem mér skilst eiga þarna í hlut, eins og venja er til þegar skipulagsbreytingar af þessum toga eru á ferðinni, einstaklingar og starfsmenn sem munu að langmestu leyti flytjast frá einum vinnuveitanda til annars, þ.e. frá Framleiðsluráðinu til Bændasamtakanna.

[18:30]

Ég vil hins vegar nota þessa ferð og spyrja hæstv. ráðherra hversu margir starfsmenn hafa starfað hjá Framleiðsluráðinu og munu þá eðli málsins samkvæmt í einhverjum tilfellum og vafalaust flestum færast til Bændasamtakanna. Að vísu er getið um það í athugasemdum fjárlagaskrifstofu að eingöngu verði hagræðing hvað mannahald varðar um einn starfsmann. Því veltir maður eilítið vöngum yfir því annars vegar og svo aftur hinu er um getur í athugasemdum með 24. og 26. gr. frv. þar sem kveðið er á um að sparnaður af breytingunni nemi 32 millj. kr. á ársgrunni. Það getur auðvitað sá eini starfsmaður ekki kostað þannig að þar hlýtur þá einnig að vera um það að ræða að tilskilin verkefni fari ekki öll frá Framleiðsluráðinu yfir til Bændasamtakanna heldur einhver önnur sem kostnaður er af og þá hugsanlega til ríkissjóðs eða landbrn. Þess vegna spyr ég í hverju þessi peningalega hagræðing liggi fyrst og síðast.

Það vekur líka athygli mína í þessu samhengi að tölur í fjárlagafrv. komandi árs, þ.e. framlag úr ríkissjóði eru upp á 51 millj. kr. og hafa farið lækkandi ár frá ári, 1998 voru þær 82 millj. og hækkuðu síðan á yfirstandandi ári í 116 og fara síðan niður í 51,3 og í athugasemdum við fjárlagafrv. er gerð grein fyrir ástæðum þessa. Ég velti því þess vegna fyrir mér í ljósi þeirra skipulagsbreytinga sem hér eru á ferðinni hvort umfang þessara verkefna dragist sömuleiðis saman með þessum tilflutningi.

Í athugasemdum fjárlagaskrifstofu er einnig á það bent að hægt er að nýta húsnæði í Bændahöllinni betur en verið hefur. Eftir því sem ég veit best hafa þessar tvær stofnanir eða stofnun og samtök, þ.e. Bændasamtökin og Framleiðsluráð, verið á sömu hæðinni í Bændahöllinni. Maður veltir fyrir sér hvers konar aukin hagræðing geti legið á bak við það að fækka um einn starfsmann þegar um er að ræða samliggjandi skrifstofur eins og sakir standa.

Einnig er rétt að staldra aðeins við það og það vekur nokkra athygli og sumpart ánægju að eignir Framleiðsluráðsins, þrátt fyrir mismunandi afkomu landbúnaðarins frá einu ári til annars, eru þannig að Framleiðsluráðið liggur inni með 190 millj. kr. Gert er ráð fyrir því í frv. að þessar eignir verði lagðar í sjóð, einhvers konar baktrygging fyrir því að Bændasamtökin geti innt þær skyldur af hendi sem frv. kveður á um án þess að þurfa að bera skarðan hlut frá borði. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er upplegg fjárlaga og hin peningalega skipan mála með þeim hætti að Bændasamtökin hafi af því einhvern peningalegan halla á ári hverju og að gert sé fyrir því að þau þurfi að leita í þennan sjóð og það megi reikna með að hann verði uppurinn eftir fimm, tíu eða tólf ár eða hvað það nú er? Eða er þetta bara varasjóður sem Bændasamtökin geta haft sem baktryggingu ef í nauðir rekur? Rétt er að fá það skýrar fram en frv. greinir okkur frá.

Í fljótu bragði sé ég margt sem mælir með því að fækka aðilum sem hafa umsýslu af ýmsum toga í landbúnaðargeiranum og sumpart eru Bændasamtökin prýðilega hæf til þess að gegna henni þó á hinn bóginn megi velta dálítið vöngum yfir því hve langt eigi að ganga í því að fela stéttarsambandi, þ.e. frjálsum samtökum atvinnurekenda og launþega eins og bændur þessa lands eru, stjórnsýslu af því tagi sem við höfum þekkt og er verið að gera í enn ríkari mæli í þessu frv. Þess er réttilega getið í athugasemdum með frv. að samtökin hafa nánast ígildi opinberrar stofnunar þegar kemur að ákvæðum upplýsingalaga og þegar kemur að réttindum til handa samtökunum til að innheimta gjöld og annað því um líkt, þau lúta raunar ákvæðum stjórnsýslulaga í þessu samhengi. Maður veltir eilítið vöngum yfir því hversu eðlilegt og skynsamlegt það er og í hversu ríkum mæli. Nú er ég ekki fyrir fram að gera mér upp neinar skoðanir í þeim efnum en ég held að okkur væri hollt að velta aðeins vöngum yfir því. Á hinn bóginn er sýnt að minni hyggju að Framleiðsluráðið var mestan part undirdeild Bændasamtakanna í ljósi þess að af þeim 15 sem sátu í Framleiðsluráðinu komu 14 frá Bændasamtökunum og landbrh. skipaði einn þannig að skylt er skeggið hökunni í þessum efnum.

Herra forseti. Það er eitt lítið atriði sem mig langaði líka að drepa hér á og vakti sérstaka athygli mína í athugasemdum með 9. gr. frv. um framsal ákveðinna tiltekinna verkefna. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt orðum ákvæðisins er stjórn Bændasamtaka Íslands veitt heimild til að fela öðrum verkefni og er því framkvæmdastjórn samtakanna eða framkvæmdastjóra ekki heimilt að taka þá ákvörðun.``

Ég velti fyrir mér ástæðum þess að þetta þarf að taka alveg sérstakleg fram, hvort það sé af einhverju gefnu tilefni að þetta þurfi að undirstrika með þessum hætti því ákvæði frv. er alveg skýrt og maður sér í fljótu bragði ekki sérstakar ástæður til þess að taka það skýrt fram í athugasemdum að átt sé við stjórn en ekki framkvæmdastjóra. Þetta er að sönnu ekki stórvægilegt atriði en rétt að halda til haga.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna að svo komnu máli. Ég undirstrika að ég er jákvæður fyrir þeim markmiðum sem lagt er upp með af hálfu hæstv. ráðherra í þessu frv., að stefna að hagræðingu og einföldun þessa kerfis. Ég mun reyna að vinna vel að þessu máli í landbn. undir þeim formerkjum. Hins vegar er nauðsynlegt að fá ýmsa þætti sem ég nefndi og hugsanlega einhverja aðra betur og gleggri upp á borð og ég er handviss um að í góðu samkomulagi í landbn. munu menn ná landi og skýrum upplýsingum við meðferð málsins.