Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:38:27 (2033)

1999-11-22 18:38:27# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. landbrh. fyrir það frv. sem við ræðum. Hér er verið að fækka þeim sjóðum og minnka þann kostnað sem hefur lagst á íslenska bændur með ofurþunga og gert stöðu þeirra þannig að lífskjör þeirra eru sennilega með þeim verstu meðal íslenskra stétta.

Mig langar til að skoða fyrst, herra forseti, hvaðan þetta frv. kemur. Á bls. 5 stendur svo, með leyfi herra forseta:

,,Á vettvangi samtaka bænda hefur um nokkurt skeið verið fjallað um skipulag og uppbyggingu samtaka og stofnana landbúnaðarins.``

Svo segir hér áfram: ,,1999 var málið komið það langt í vinnslu að stjórn Bændasamtaka Íslands samþykkti á fundi sínum að leita eftir því, í samráði við Framleiðsluráð landbúnaðarins, að landbúnaðarráðherra skipaði nefnd til endurskoða lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum ...``

Það er því þannig að þetta frv. kemur frá samtökum bænda þar sem þeir eru að garfa í eigin málum, um uppbyggingu samtaka bænda og það er stjórn Bændasamtakanna sem vinnur að þessu frv. Þá er kannski ekki skrýtið þó að fram komi í bráðabirgðaákvæði frv. að peningalegar eignir Framleiðsluráðs landbúnaðarins renni til Bændasamtaka Íslands en það eru 190 milljónir eða u.þ.b. 40 þús. kr. á hvern íslenskan bónda.

Nú hefði ég talið, herra forseti, að þessar eignir væru eign bænda, ef ekki neytenda því þetta er tekið af búvöruverði. Þó hallast ég nú frekar að því að þetta sé eign bænda. Ég hefði reynt að leita leiða til þess að koma þessu til bænda með einhverjum hætti. (Gripið fram í: Í lífeyrissjóðinn?) Til dæmis í lífeyrissjóðinn eða með því að lækka þetta búvörugjald sem leggst með ofurþunga á alla bændur, ríka sem fátæka og alveg sérstaklega þá sem eru fátækir og það kem ég inn á núna á eftir.

Hluti af gjaldinu, eins og við ræddum á sínum tíma þegar þetta gjald var lagt á og einfaldað sem var mjög jákvætt og allt gott um það að segja, rennur nefnilega til Lánasjóðs landbúnaðarins, þ.e. 1,15% af öllum tekjum bænda, fátækra sem ríkra. Þetta eru um 200 millj. kr. eða 40 þús. kr. á hvern bónda. Að meðaltali eru teknar 40 þús. kr. af hverjum bónda, fátæka bóndanum sem stundar sauðfjárrækt með 200 ærgildin sín og á varla til hnífs og skeiðar, náttúrlega er tekið minna frá honum, en hittir hann harðar.

Hverjum er lánað úr þessum sjóði? Þeim sem eiga eignir til veðsetningar. Eins og ég gat um þegar við ræddum um þetta gjald fyrir nokkrum árum þá var þetta afskaplega ófélagslegt. Tekið er af fátæka bóndanum til þess að lána ríka bóndanum. Ég skora á hæstv. landbrh. að lækka þetta gjald enn frekar og hætta þessari millifærslu inn í Lánasjóð landbúnaðarins sem er gjörsamlega óþarfur þegar allt er yfirfljótandi í peningum í þjóðfélaginu og fullt af sjóðum og stofnunum sem eru tilbúin til að lána þeim sem eiga eignir á annað borð og geta greitt lánið til baka.

Þessi hluti frv. er enn þá neikvæður og ég skora á hæstv. landbrh. að láta ekki hér við sitja. Þetta er gott skref, búvörugjaldið lækkar um 0,1% og það ber að þakka það, það eru 17 milljónir. Vel getur verið að einhvern bónda muni um það, ég reikna með því. En enn er þetta allt of mikið og ég skora á hæstv. landbrh. að láta ekki hér við sitja heldur halda áfram að létta álögum af íslenskum bændum þannig að þeir geti farið að rísa upp eins og aðrar stéttir og hafa sínar tekjur.

Herra forseti. Það er eitt smáræði sem ég vildi gjarnan benda á og það er nafnið á þessu frv. ,,Frumvarp til laga um breytingu á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins``. Þegar ég var í síld þá þýddi niðurlagning eitthvað allt annað. Þetta er ákveðin nafnorðasýki. Ég mundi leggja til að þetta héti bara frumvarp til laga um breytingu á lögum til að leggja niður Framleiðsluráð landbúnaðarins.