Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:54:28 (2036)

1999-11-22 18:54:28# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstvirtur forseti. Ég vil þakka málefnalegar umræður um frv. og ágætar undirtektir. Hv. þm. hafa komið inn á mörg atriði sem skipta máli. Það er mjög mikilvægt að landbn. þingsins grandskoði þetta mál og fari yfir það.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, 6. þm. Reykn., kom inn á það í ræðu sinni að frv. kæmi seint fram en til stæði að afgreiða það um áramót. Ég get tekið undir það með hv. þm. og harma í rauninni að það skyldi ekki koma fyrr til þingsins, en því miður er þetta staðan. Ég vona eigi að síður að landbn. gefi sér góðan tíma nú í þinghléi og fari yfir málið. Ég hygg að góð samstaða sé um málið og margir hafa komið að því að móta það, þannig að ég á ekki von á mikill ágreiningur sé um það en harma eigi að síður að það skyldi ekki komast fyrr til umræðu vegna vinnu í kringum frv.

Hv. þm. spurði hversu margir starfsmenn mundu sparast. Ég hygg að hjá Framleiðsluráðinu séu starfandi sjö til átta manns, sex til sjö störf færast þá með verkefnunum yfir til Bændasamtakanna. Það eru ekki mörg störf í sjálfu sér sem sparast, en ég held að sparnaðurinn liggi samt í mörgum atriðum. Mikill kostnaður mun sparast við húsnæði sem verður endurskipulagt í framhaldi af þessu, þar liggur mikill sparnaður.

Hv. þm. og fleiri hafa spurt um þennan sjóð, 190 millj. sem færast með verkefninu. Sjóðurinn er eingöngu tengdur þeim verkefnum sem Framleiðsluráðið fer með og aðrir yfirtaka nú. En auðvitað mun þessi sjóður --- og það skilur kannski best hv. þm. Pétur Blöndal sem hér talaði, að stundum er dýrmætt að eignast digra sjóði. Þessi sjóður er vel ávaxtaður og hagnaður eða vextir af honum koma til með að standa undir rekstri þeirra verkefna sem Bændasamtökunum er falið og um leið spara gjöld sem bændur verða að borga af afurðum sínum og stuðla að lægra verði til neytenda. Þetta er því allt saman af því góða.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal fór yfir frv. og spurði hvaða verkefni það væru sem færðust yfir til Bændasamtakanna. Það er auðvitað fyrst og fremst ,,... að Bændasamtök Íslands taki við því verkefni Framleiðsluráðs landbúnaðarins að annast verðmiðlun. Í a-lið 9. gr. er kveðið á um heimild Bændasamtaka Íslands til að fela afurðastöðvum verkefni samkvæmt sérstökum samningi þar um sem skal staðfestur af ráðherra. Þá er kveðið á um að Bændasamtök Íslands hafi eftirlit með framkvæmd verkefna samkvæmt slíkum samningi og að afurðastöðvum beri að veita samtökunum upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt slíkum samningi. Er slíku fyrirkomulagi ætlað að tryggja réttaröryggi þeirra einstaklinga og lögaðila sem þessi verkefni varða.``

Það eru auðvitað margar hliðar á þessu máli og mörg verkefni sem þar færast yfir. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni sem minntist á það atriði að það kann að vera spurning hvað stéttarsamtök eiga að taka að sér mikil verkefni í stjórnsýslunni. Það er ákvörðun sem bæði stjórnmálamenn verða að íhuga og ekki síður þeir sem fara fyrir í stéttarbaráttu fyrir grein sína. En þetta er niðurstaða sem menn hafa komist að.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist á fleira í ræðu sinni og fór út fyrir efnið og ræddi um Lánasjóð landbúnaðarins sem hann fann allt til foráttu og taldi að þar væru fyrst og fremst þeir ríku að taka gjald af þeim fátæku. Ég er nú sannfærður um það eftir að hafa starfað lengi í Lánasjóði landbúnaðarins og Stofnlánadeildinni áður, að þetta er mikilvægur sjóður sem treystir mjög kynslóðaskipti í sveitum, gefur ungu fólki færi á að kaupa sér jarðir. Þar eru vextir lágir, eða 3% í dag, það gerist ekki lægra á markaðnum. Það hefur margoft verið farið yfir það bæði af stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins, af Bændasamtökunum og fleirum að Lánasjóður landbúnaðarins er mjög hagstæður sjóður, ekki síst fyrir byrjendur í sveitum, hann er félagslegt afl. En ég skil það ósköp vel þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal skilji ekki mikið í félagshyggju, þá er ég nú sannfærður um að þessi sjóður er að gera verulegt gagn í að stuðla að því að ungt fólk sest að í sveitum og getur byggt upp atvinnutækifæri sín og er að því sem betur fer. Þessi sjóður er mikilvægur liður í því.

[19:00]

En ég skal taka undir það með hv. þm. og fleirum að það er auðvitað mjög mikilvægt að horfa á allar leiðir til sparnaðar í sjóðagjöldum og hagræðingar í því flókna kerfi sem við búum við í landbúnaðinum. Þar þurfum við auðvitað að huga að miklum sparnaði til þess að sem mest af tekjunum geti orðið tekjur bænda og þeir svo aftur með sínu góða hráefni skilað ódýrri vöru til neytendanna.

Hér er verið að stíga skref sem síðan mun kannski skila af sér fleiri atriðum í þá átt að menn hagræði, skýri og skerpi línur og dragi úr kostnaði hvað rekstur á flóknu kerfi í kringum landbúnaðinn varðar. Að minnsta kosti vill sá sem nú starfar sem landbrh. taka undir að þar er mikilvægt að horfa á með nýjum gleraugum framtíðarinnar.

Hv. þm. Jón Bjarnason tók undir þetta frv. og taldi það gott skref til að einfalda. Hann ræddi að vísu um hver væri staða framkvæmdanefndar búvörusamninga. Auðvitað er hún vörðuð í ákvæðum laga um búvörusamninga o.fl. og þar koma margir aðilar að. Ég held því að sú staða sé mjög sterk og framkvæmdanefndin hafi fullan rétt til að taka við verkefnum sem henni verða falin.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson ræddi frv. og talaði um í hverju þessi sparnaður þá lægi, sem í heildina er þó einar 32 millj., því eins og ég sagði áður hefur Framleiðsluráðið verið rekið með halla og í þessu er fólginn heilmikill sparnaður, ekki síst í húsnæði eins og ég gat um. Síðan má geta þess að það hlýtur að vera töluverður sparnaður í því að færa þetta til nefnda og ráða sem eru til og leggja niður 15 manna stjórn Framleiðsluráðsins, en Framleiðsluráð hefur verið skipað 15 manns. Það eru launaðar stöður og það sjá allir að heilmikill kostnaður er að kalla saman svo stórt þing reglulega, þannig að þar í liggur líka heilmikill sparnaður og hagræðing að fara þá leið.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. að lífeyrissjóðsmál bænda eru í alvarlegri stöðu og sjóðurinn á að því leyti erfitt. Hann er yngstur allra sjóða, hefur fengið skamman tíma, stéttin er fullorðin og koma færri inn en í margar aðrar greinar. Þar er vissulega framtíðarverkefni sem við þurfum að huga að, þ.e. hvernig hægt væri bæði að bæta stöðu þeirra sem hætta störfum í landbúnaðinum og styrkja lífeyrissjóðinn til þeirra hluta en það er annað og þyngra verkefni sem við munum setjast yfir, vona ég.

Ég held að ég hafi þá komið inn á flest þau atriði sem hér hefur verið minnst á og þakka enn og aftur þessa ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vona að hv. landbn. fyrirgefi hæstv. landbrh. að málið skyldi ekki komast fyrr inn en bretti nú upp ermar og skoði hvort ekki sé þrátt fyrir það hægt að afgreiða það með nokkrum hraða.