Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:09:18 (2040)

1999-11-22 19:09:18# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sumir félagshyggjumenn eru þannig gerðir að þeir virðast vilja eyða öllum sjóðum upp og skipta þeim út og taka síðan fullt gjald af framtíðinni. Þær 190 millj. sem þarna eru til eru stofn til þess að spara gjaldtöku af landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar og nýtast því þeirri kynslóð sem nú starfar. Ég held að það væri mjög óeðlilegt að fara að deila þessum peningum út á persónuleg nöfn manna ef hv. þm. er að leggja það til, sem ég veit ekki, ég held að það væri flókin aðferð.

Ég er því sannfærður um að sú leið, að nýta þennan sjóð með hinum nýju verkefnum og spara um leið gjaldtöku, er heppileg fyrir starfandi bændur dagsins. Hitt vandamálið sem hér er svo rætt um, þ.e. lífeyrissjóðurinn og staða bænda gagnvart lífeyrissjóði, er allt annað mál. Þar hef ég eins og margir aðrir áhyggjur og gat um það áðan að það verðum við að skoða sérstaklega og með öðrum hætti en að blanda því inn í þau verkefni sem hér er verið að ræða um.