Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:56:14 (2051)

1999-11-22 19:56:14# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst flokkspólitík geta verið fagleg pólitík, sanngjörn pólitík og fagleg. Mér finnst að við göngum stundum of langt í að bannfæra allt það sem pólitískt er. Það þarf ekki að felast nein spilling í því að halda fram pólitísku sjónarmiðum sínum eða að mismuna fólki á ranglátan máta.

En aðeins að lokum það sem varðar fjármögnun Ríkisútvarpsins. Við þurfum að ná meiri og víðtækari sátt um það. Ég held að staðreyndin sé sú að það eru ekki allir í þjóðfélaginu sáttir við að hafa ríkisútvarp og að ríkið fjármagni útvarp, það er staðreynd málsins. Ég hef trú á því að það sé yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sem er á því máli. En sú leið sem við förum í fjármögnun, þ.e. afnotagjöldin, gerir þessa fjármögnun gagnsæja, hún er uppi á borði. Ef við erum á því máli að við ætlum að láta þessa peninga renna til Ríkisútvarpsins í gegnum skattheimtu þá er nákvæmlega sami hluturinn á ferðinni nema hann er bara dulinn og hann er falinn. Ég held að þetta sé mergurinn málsins.

Ég hef alltaf verið tilbúinn að skoða það að fara aðrar leiðir í að fjármagna Ríkisútvarpið en ég hef staðnæmst við ábendingar sem hafa komið frá Ríkisútvarpinu sjálfu og frá samsvarandi stofnunum á Norðurlöndum og í Bretlandi þar sem þær segja að þetta sé þó traustasta leiðin til að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu.