Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:58:06 (2052)

1999-11-22 19:58:06# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:58]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að ekki finnist önnur leið betri en sjálfsagt er að fara í þann leiðangur að leita og ugglaust má gera hlutina öðruvísi en gert er í dag að einhverju leyti þannig að meiri sátt ríki um.

Ég er alveg sammála hv. þm. um að flokkspólitík þarf ekki alltaf að vera ávísun á spillingu eða eitthvað vont í sjálfu sér, það er langt í frá. Þetta er sú aðferð sem við höfum ákveðið að viðhafa til að ná lýðræðislegri niðurstöðu í málum og er sjálfsögð, eðlileg og jákvæð og hluti af okkar stjórnkerfi.

Ég er hins vegar ekkert viss um að flokkspólitík eigi erindi inn í stjórnir eins og stjórnir Ríkisútvarps, það er það sem ég var að segja. Í því felst ekki áfellisdómur um flokkspólitík, í því felst einungis ósk um að mál geti ráðist á þeim vettvangi án þess að menn séu þar með sína flokkspólitísku pinkla uppi á borði. Ég er kannski að biðja um faglegra útvarp og útvarp þar sem menn og málefni eru hvorki tekin inn sérstaklega eða útilokuð sérstaklega af flokkspólitískum ástæðum.