Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:45:46 (2068)

1999-11-22 20:45:46# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það eru engar nýjar fréttir fyrir Alþingi að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason langi til að einkavæða Ríkisútvarpið og gera það að hlutafélagi. (Menntmrh.: Ég hef aldrei sagt að ég vildi einkavæða Ríkisútvarpið.) Hann vildi ekki einkavæða. Þá er nefnilega annað tveggja sem vakir fyrir hæstv. ráðherra með því að gera það að hlutafélagi. Það er að selja hlutina, hann segist ekki vilja gera það. Hinn kosturinn er þá fyrir hendi að hlutabréfið sé á hendi eins manns. Sá maður heitir Björn Bjarnason og er hæstv. menntmrh. Hvorugur kosturinn finnst mér góður og mér finnst þetta vera ólýðræðislegt. Þegar hæstv. ráðherra bendir á að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafi óskað eftir því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi vil ég víkka sjóndeildarhringinn ögn meira og horfa til starfsmanna þessarar stofnunar almennt. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins hafa lagst mjög eindregið gegn þessari hugsun. Þegar menn eru að tala um fólk sem vilji ekki breytingar og er þá væntanlega verið að vísa til okkar, sem höfum uppi þann málflutning sem ég hef uppi, vil ég að það komi fram að ég er fylgjandi ýmsum breytingum á Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.)

Ég skal nefna þær ef ég fæ tækifæri til að koma aftur upp í andsvari.