Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:48:07 (2070)

1999-11-22 20:48:07# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera því skóna að hæstv. menntmrh. misbeiti valdi sínu. En við tökum eftir því hverjir eru fulltrúar hæstv. ráðherra þegar hann hefur tækifæri til að skipa fulltrúa. Hann skipaði t.d. fulltrúa almennings, mannsins á götunni, í háskólaráð. Hver skyldi það hafa verið? Það er forstjóri Eimskipafélagsins. Að sjálfsögðu er það forstjóri Eimskipafélagsins. Þetta er fulltrúi mannsins á götunni sem hæstv. ráðherra skipar.

Við viljum mörg sjá þá breytingu á Ríkisútvarpinu að úthýsa þeirri markaðshyggju sem er farin að ráða þar lögum og lofum. Mér finnst það afskaplega hvimleitt, svo að ég taki dæmi, að hlusta á spjallþátt í sunnudagseftirmiðdögum í kaffitímanum í boði Kaffibrennslu Akureyrar. Nú er kominn nýr þáttur, ég held að hann heiti Sunnudagslærið. Hver skyldi kosta það? Goði. Þetta er Ríkisútvarpið og ég hefði áhuga á að heyra álit hæstv. menntmrh. íslenska lýðveldisins á þessari þróun.