Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:51:08 (2072)

1999-11-22 20:51:08# 125. lþ. 30.13 fundur 185. mál: #A meðferð opinberra mála# frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:51]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Flutningsmenn ásamt mér eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, Gunnar Ólafsson, sem sat á Alþingi í fjarveru hv. þm. Þuríðar Backman þegar frv. var lagt fram, hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Frv. er svohljóðandi:

,,Við 6. mgr. 59. gr. laganna [sem vísað var til] bætist nýr málsliður er orðast svo: Þessi ákvörðun dómara skal ekki hafa áhrif á mat á sannleiksgildi skýrslu vitnis.``

Nú ætla ég að sýna hvert samhengi hlutanna er. Staðreyndin er sú að samkvæmt meginreglu er sá háttur hafður á við réttarhöld að sá sem ákærður er er viðstaddur skýrslutöku dómara af vitnum í opinberum málum sem höfðuð eru gegn honum. Þetta er almenna reglan. En samkvæmt þeirri lagagrein sem við erum að gera tillögu um að verði breytt getur dómari ,,ákveðið að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin, ef þess er krafist, og dómari telur að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess.``

Hér vitnaði ég beint til lagagreinarinnar og við erum að gera tillögu um það að á eftir þessari setningu komi fyrrgreind lagabreyting: ,,Þessi ákvörðun dómara skal ekki hafa áhrif á mat á sannleiksgildi skýrslu vitnis.``

Nokkur orð um málsatvik eða ástæður þess að við leggjum til þessa lagabreytingu. Nýlega féll í Hæstarétti dómur nr. 286/1999 í kynferðisbrotamáli þar sem ákærði var sýknaður af kæru um kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Málið hafði í tvígang verið til meðferðar í héraðsdómi en eftir fyrri meðferð þess þar þótti Hæstarétti að fleiri gögn skorti í málið og ómerkti því dóm héraðsdóms. Í báðum tilvikum þegar héraðsdómur fjallaði um málið var ákærði látinn víkja úr þinghöldum meðan kærandi gaf skýrslur sínar fyrir dóminum og var sú ákvörðun byggð á fyrrgreindri 6. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Fyrri ákvörðun héraðsdóms um að ákærði viki úr dómnum meðan kærandi gæfi skýrslu kærði verjandi ákærða til Hæstaréttar. Hann krafðist þess að þessi ákvörðun héraðsdóms yrði felld úr gildi. Hæstiréttur staðfesti ákvörðun dómara í dómi sínum 12. nóvember 1997 og í þessum dómi Hæstaréttar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Af hálfu ákæruvaldsins hefur fyrir Hæstarétti verið tekið undir ósk vitnisins um að varnaraðili verði látinn víkja af dómþingi á meðan það gefur skýrslu. Með því er látið í ljós, að ákæruvaldið sé reiðubúið að axla byrðina af því að sönnunargildi skýrslunnar kunni ekki að verða hið sama og ef hún væri gefin að varnaraðila viðstöddum.``

Þetta er að finna á bls. 3234 í hæstaréttardómi nr. 449/1997. Með öðrum orðum er viðkomandi látinn víkja en þar með dregur úr vægi vitnisburðar brotaþolans. Sú túlkun á lagaákvæðinu sem hér um ræðir er endurtekinn í dómi Hæstaréttar nr. 286/1999 í sama máli. Það er þessi skilningur Hæstaréttar, þ.e. að notkun framangreinds heimilarákvæðis kunni að rýra sönnunargildi skýrslu vitnis sem er tilefni þess að frv. til laga um breytingu á lögunum um meðferð opinberra mála er flutt.

Ætla verður að löggjafarvaldið hafi við setningu þessa heimildarákvæðis viljað tryggja að nærvera sakbornings hefði hvorki áhrif á framburð vitnis né íþyngdi því svo að það gæti ekki sagt satt og rétt frá málavöxtum. Sömuleiðis verður að ætla að vilji löggjafans hafi verið sá að þessi háttur á meðferð máls yrði ekki til að rýra sannleiksgildi framburðar vitnis við mat á sönnunarfærslu í málinu.

En síðan kemur á daginn samkvæmt tilvitnuðum hæstaréttardómi að dómurinn leggur annan skilning í þetta og lítur svo á að viðkomandi hafi þar með axlað þá ábyrgð eða verði að sætta sig við það að vitnsburðurinn vegi ekki eins þungt og ella hefði verið.

Umrætt heimildarákvæði hefur einkum verið notað í kynferðisbrotamálum. Eðli þeirra er að þolendur þeirra hafa mátt sæta mikilli valdníðslu og andlegu og stundum líkamlegu ofbeldi af hendi ákærða. Umrætt heimildarákvæði skiptir því sérstaklega miklu máli fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Sá skilningur Hæstaréttar að fjarvera hins ákærða þegar vitnið sem jafnframt þolandi meints ofbeldis gefur skýrslu sína í dómssal kunni að rýra sannleiksgildi framburðar þess getur jafnvel leitt til þess að þolendur treysti sér enn síður að kæra kynferðisbrotamál en nú er.

Frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem hér er lagt fram er ætlað að tryggja að þegar 6. mgr. 59. gr. laganna er breytt rýri það á engan hátt sönnunargildi framburðar vitnis þó skýrsla þess sé gefin að ákæranda fjarverandi.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umræðu vísað til umfjöllunar í allshn. Alþingis.