Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:10:21 (2076)

1999-11-23 14:10:21# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu minni fjallar frv. annars vegar um að uppfylla alþjóðasamþykktir sem Ísland er aðili að og svo hins vegar að skapa ramma sem tryggir sem best öryggi sjómanna og réttindi þeirra, í rauninni hvar sem er í heiminum. Út á þetta gengur frv. Við getum ekki með íslenskri löggjöf sett kvaðir á eigendur sem gera út skip frá öðrum löndum. Það liggur nokkuð ljóst fyrir þannig að varðandi það tilvik sem hv. þm. nefndi getur þessi löggjöf ekki náð til vandamála sem snúa að útgerðum skipa sem eru gerð út frá öðrum löndum. Það liggur alveg ljóst fyrir þannig að við erum fyrst og fremst að tryggja að réttindi sjómanna okkar séu örugg og þekkingin sé sem mest og alls öryggis sé gætt í hvívetna.