Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:11:57 (2077)

1999-11-23 14:11:57# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um góðan ásetning hæstv. ráðherra. Ég er hins vegar að vekja athygli á því að lög eru sett lög á Alþingi en síðan er veruleikinn sá að íslensk skipafélög taka á leigu skip með áhöfnum þar sem slíkar grundvallarreglur um réttindi og kjör eru ekki virtar. Mér finnst illa komið fyrir Íslendingum ef ekki er unnt að sinna vöruflutningum til og frá Íslandi á skipum undir íslenskum fána þar sem kjör og aðbúnaður er í samræmi við íslenska kjarasamninga.

Mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir Alþingi og fyrir stjórnvöld og fyrir ríkisstjórnina nú, ekki síst þar sem í íslenskri höfn er skip sem brýtur þessar grundvallarreglur, að við skulum vera að setja lög og stuðla að réttindum sem eru síðan ekki virt. Ég spyr enn og aftur: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu tiltekna máli sem við stöndum frammi fyrir í Reykjavíkurhöfn? Mér finnst það umhugsunarnefni nú á sama tíma og við erum að ræða um kjör og réttindi sjómanna.