Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:19:11 (2081)

1999-11-23 14:19:11# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv. hæstv. samgrh. sem að mörgu leyti tekur á réttindamálum íslenskra sjómanna með menntun úr sjómannaskóla og tryggir að réttindi þeirra á alþjóðavísu séu gild. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt og löngu tímabært og ég fagna því að það skuli gert hér og við sjáum fram á að skírteini verða gefin út sem alþjóðaskírteini.

Að sjálfsögðu hefur margt í þessu frv. komið fram af hálfu hæstv. ráðherra og ekki er ástæða til þess að vera að fara ofan í það. Mig langaði samt aðeins að tæpa á nokkrum atriðum sem koma þessu frv. við og kannski koma því við hvernig mál hafa þróast í menntun og þjálfun starfsmanna til sjós og yfirmanna til sjós, en á því er tekið í 3. gr. frv.

Þar langar mig til að taka til eitt sérstakt atriði sem varðar þá sem bera ábyrgð á menntun og þjálfun sjómanna. Þar er annars vegar um að ræða menntmrn. eða menntmrh. sem er yfirmaður Sjómannaskólans en síðan er annar skóli sem heitir Slysavarnaskóli sjómanna og hann heyrir undir samgrh. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna þessir tveir skólar sem eru svo nátengdir og í mínum huga óaðskiljanlegir skuli vera hvor undir sínu ráðuneytinu og reknir alveg án nokkurra innbyrðis tengsla því að maður sér ekki fyrir sér að menntun og öryggismál geti verið það óskyld að það þurfi að reka þau í sitt hvorum skólanum. Ég veit að þróunin er dálítið sérstök. Slysavarnaskóli sjómanna hefur þróast sér á parti vegna áhuga Slysavarnafélags Íslands og núna Slysavarnafélagsins Landsbjargar og afskaplega kraftmiklir menn hafa rekið það mál áfram og gert þetta með miklum sóma. En það segir mér ekki að nauðsynlegt sé að hafa þetta svona. Maður veltir líka fyrir sér stöðu Sjómannaskólans í dag sem hefur komið fram hér í andsvörum.

Sjómannaskólinn er í þeirri stöðu nú að ekki einn einasti nemandi er á öðru stigi í Stýrimannaskólanum, þ.e. í fiskimannadeildinni, og í farmannadeildinni var enginn í fyrra. Þó eru nokkrir í ár. Þessi þróun gæti hugsanlega leitt til þess að Sjómannaskólinn sem slíkur verði ekki starfræktur vegna þess að það vantar fólk í skólann.

Hvers vegna vantar fólk í sjómannaskóla í landi eins og Íslandi, sem er eyja eins og allir vita og þjóðin lifir að langstærstum hluta á fiskveiðum?

Herra forseti. Að sjálfsögðu getur margt orsakað þessa stöðu. Ég hygg að bæði sé það svo að flotinn hafi breyst afskaplega mikið. Á undanförnum 10--15 árum hefur hann gjörbreyst. Síðan hafa alls konar breytingar orðið t.d. vegna undanþáguákvæða, getum við sagt, sem hafa heimilað að menn geta verið um borð í skipum sem eiga að uppfylla ákveðnar menntunarkröfur, þ.e. að undanþáguheimildir gildi jafnvel árum saman, séu endurnýjaðar árum saman fyrir sama fólkið. Nú hefur verið tekið á sumum þessara atriða en eigi að síður urðu t.d. undanþágur í stýrimanna- og vélstjóraplássum um borð í fiskiskipum við landið um 1.170 á sl. ári. Ég hygg að fyrir fjórum, fimm árum hafi þetta verið um 750 undanþágur. Það sem af er þessu ári eru komnar 1.274 undanþágur fyrir stýrimenn og vélstjóra um borð í skipum við Ísland. Af þessum undanþágum eru um það bil 75% vegna vélstjóramenntaðra manna og 25% vegna stýrimanna um borð í skipum.

Sívaxandi fjöldi undanþágna hlýtur að leiða hugann að því hvort ekki sé verið að lengja sífellt í þeirri kröfu að menn sæki sér menntun sem samkvæmt lögum er almennt talin nauðsynleg og við hæfi um borð í skipum. Ég vildi gjarnan beina því til hæstv. samgrh. að hann skoðaði þetta. Ég veit að það er alltaf verið að skoða þetta en eigi að síður eru alltaf veittar fleiri og fleiri undanþágur þó svo að meiningin sé að fækka þeim.

Að mínu viti hefur fleira breytt þessu og kannski einna mest, þ.e. samsetning íslenska fiskiskipaflotans. Íslenski fiskiskipaflotinn var að uppistöðu til á síðustu áratugum svokölluð vertíðaskip. Það voru skip um og yfir 100 tonnum, svona frá 50 og upp í 200 tonn. Þessi skip voru mönnuð fimm mönnum og upp í sex og jafnvel fleiri eftir því í hvers konar veiðiskap menn voru, allt upp í 10--11 menn. Á síðustu árum hefur þetta breyst svo mikið að þessi floti er að hverfa og í staðinn eru komnir krókabátar. Um tíma, fyrir tveim, þrem árum síðan, voru hérna yfir þúsund krókabátar og á þessa krókabáta þarf í sjálfu sér engin ,,réttindi``, við skulum segja innan gæsalappa, því að það þarf reyndar pungapróf á þessa báta sem eru undir 30 tonnum og pungaprófi er hægt að ná upp úr grunnskólum með námskeiði úr 10. bekk.

Á þessar þúsund trillur sem eru á veiðum þurfa menn sem sagt ekki nein önnur réttindi en þau að hafa tekið námskeið í grunnskóla. Þessir bátar eru margir hverjir að gera nákvæmlega sömu hluti og vertíðabátarnir voru að gera hér á árum áður. Þeir fiska jafnmikið. Þeir fara margfalt hraðar um sjóinn. Þeir hafa svipaða möguleika. Þó að burðargetan sé náttúrlega minni þá eru þeir eigi að síður svo vel tækjum búnir að þeir geta sinnt hlutverki vertíðabáta eins og þeir voru hér áður fyrr þar sem um borð voru fimm, sex menn.

Að sjálfsögðu er þetta tækni nútímans og ekkert við því að segja. En ég held nú samt að sú breyting að pungaprófið er nánast orðin algild regla um borð í fiskiskipum frekar en undantekning, hljóti að vekja menn til umhugsunar um hvað sé að gerast. Herra forseti. Ég tel a.m.k. að við eigum að endurskoða þessi mál frá grunni og til þess þyrfti að skipa kunnáttumenn og reyna að átta sig á því hvert stefnir því að með sama áframhaldi verður enginn stýrimannaskóli rekinn hér á þessu landi og menn sækja þá væntanlega réttindi sín eitthvert annað.

Auðvitað er líka til önnur leið sem farin hefur verið erlendis. Menn hafa viðurkennt þar að sjómannamenntunin er ekki menntun sem menn sækja sér til að hafa atvinnu af einvörðungu til lífstíðar heldur hugsa flestir til þess að stunda sjómennsku einungis skamman tíma til að sækja sér góð laun en hverfa síðan til annarra starfa í landi. Stýrimannamenntunin hefur gagnast illa til starfa í landi þannig að ef menn komast hjá því að mennta sig til sjómennsku þá gera þeir það og sækja því menntun til annarra starfa. Þetta þyrfti að reyna að samræma þannig að sjómannamenntunin tengdist annarri menntun. Þjóðverjar og fleiri Evrópuþjóðir hafa viðurkennt þá staðreynd að sjómannamenntunin er skammtímamenntun, hana þarf því að tengja öðru starfi sem gæti nýst í landi.

[14:30]

Í þeirri grein sem snýr að pungaprófinu er verið að breyta skilgreiningum sem notaðar eru um þau réttindi. Í dag duga svokölluð pungaprófsréttindi fyrir um 30 brúttórúmlesta skip og minni en með þessu frv. er gert ráð fyrir því að þessi réttindi gildi fyrir 50 brúttótonna skip og minni. Í augum flestra mundi þetta þýða að pungaprófið gilti á stærri skip, um 20 tonn, en þó mun svo ekki vera í flestum tilfellum því að 50 brúttótonn eru nokkurn veginn hið sama og 30 brúttórúmlestir, mismunandi samt eftir skipum. Þetta getur þýtt einhverja aukningu en í flestum tilfellum er þetta það sama. Út af fyrir sig geri ég því ekki athugasemd við að þetta sé orðað þannig þar sem hér er í sjálfu sér ekki um verulega breytingu að ræða.

Ég vildi, herra forseti, gera athugasemd við eitt og spyrja hæstv. samgrh. atriði í 5. gr. Þar er talað um stjórnunarsvið, þ.e. um 3. stigs yfirstýrimenn og skipstjóra og svo aftur yfirstýrimenn og skipstjóra. Annars vegar er talað um að þetta stig takmarkist við minna en 3 þús. brúttótonn og hins vegar virðist þar gert ráð fyrir engum takmörkum. Ég velti því fyrir mér til hvers er verið að telja upp yfirstýrimenn og skipstjóra tvisvar sinnum. Ég átta mig ekki á muninum. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra vildi skýra þennan mun.

Ég vil að lokum, herra forseti, varðandi þá umræðu sem fór fram áðan í andsvari um erlent flutningaskip í höfninni, benda á að þetta er eitt af því sem er að koma betur og betur upp á yfirborðið. Íslensk flutningaskip eru nánast að hverfa úr skipaflota landsmanna. Íslensk flutningafyrirtæki leigja til sín erlend skip með erlendri áhöfn. Ég ætla ekki að fara út í hvort þau fylgi samningsbundnum kröfum um laun. Ég ætla rétt að vona að þau geri það. (ÖJ: Þau gera það ekki.) Ég hef ekki farið ofan í það mál sérstaklega.

Við vitum að skipafélög eins og t.d. Eimskipafélag Íslands hefur verið með allt niður í eitt skip undir íslensku flaggi með íslenskri áhöfn. Hvort það er með tvö eða þrjú slík í dag skal ég ekki segja. Svo er komið fyrir langstærsta skipafélagi landsins sem á sínum tíma hafði þann mikla metnað að sigla eingöngu á eigin skipum með íslenskri áhöfn. Nú er þetta liðin tíð.

Afleiðingin er sú að örfáir útskrifast sem farmenn úr Sjómannaskólanum. Það er ekki hægt að reka deild farmanna á hverju ári vegna þess að eftirspurnin á Íslandi er engin. Þar erum við komnir í þá stöðu sem íslenskir fiskimenn gætu lent í síðar. Íslenskum farmönnum hefur fækkað mjög og í framtíðinni verðum við hugsanlega að sækja alla flutninga okkar til erlendra aðila sem muni sjá um þessi mál fyrir okkur. Mér finnst þessi uggvænlega þróun áhyggjuefni og held, herra forseti, að þar sem þessi menntun og þjálfun heyrir undir samgrh. jafnt og menntmrh. sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherrar taki á þessu máli.