Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:35:09 (2082)

1999-11-23 14:35:09# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem frv. hefur fengið við þessa umræðu. Ég vænti þess að hv. samgn. fái gott tækifæri til að fara rækilega yfir m.a. þær athyglisverðu ábendingar sem fram komu í ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar, þ.e. það sem snýr að stöðu sjómannastéttarinnar og eftirspurn eftir þeirri menntun. Það er auðvitað visst áhyggjuefni.

Almennt tel ég að út af fyrir sig muni þær reglur sem hér er verið að setja í löggjöf á engan hátt letja Íslendinga í að sækja nám í Sjómannaskólanum eða vélskólum. Frv. gerir ráð fyrir því að tryggja mjög vel og vandlega réttindi þeirra og það skiptir miklu máli að lagaramminn og reglurnar séu skýrar og tryggi hagsmuni viðkomandi stétta. Við eigum mjög mikð undir því. Þær verða einnig að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt.

Hins vegar er það staðreynd að Sjómannaskólinn er rekinn á vegum menntmrn. annars vegar og hins vegar Slysavarnaskóli sjómanna á vegum samgrn. Þessi leið hefur verið valin og hún hefur reynst býsna vel. Að starfsemi Slysavarnaskólans koma slysavarnasamtökin í landinu. Það er mikill fengur að hafa fengið þau að þessu starfi eins og fram kom hjá hv. þm. Um allt sem snýr að reglum og námskröfum er hins vegar fjallað í menntmrn. Síðan er gert ráð fyrir að Siglingastofnun fjalli um það. Reynt er að tryggja sem best að faglega sé að verki staðið og reglur séu settar með tilliti til þeirra aðstæðna sem þetta nám krefst.

Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að svo margar undanþágur þurfi að gefa til þeirra sem stunda þessi störf á sjó. Það er nauðsynlegt að skoða það og ég er reiðubúinn til að gera mitt til að úr því megi draga. Ég sé hins vegar ekki leiðirnar til þess á þessari stundu. Auðvitað þarf umfram allt að gera sjómannsstarfið sem aðgengilegast.

Hvað varðar töflurnar í 5. gr. frv. þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki mikill sérfræðingur í uppsetningu þeirra reglna sem þar eru. Þetta er algerlega byggt á alþjóðasamþykktum, STCW-reglum. Þarna eru skýrð takmörk og gildissvið einstakra námsstiga. Reglurnar eru settar upp samkvæmt alþjóðareglum og eru partur af alþjóðasamningum sem við höfum undirgengist. Ég verð þannig að vísa til þess. Hins vegar er sjálfsagt er að hv. samgn. kalli til sérfræðinga sem þekkja þetta út og inn. Ég mun að sjálfsögðu stuðla að því að sem allra mest verði upplýst um baksvið þessara reglna.

Ég vil endurtaka þakkir fyrir undirtektir og vænti þess að frv. hljóti sem fyrst afgreiðslu í þinginu.